145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[17:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það má alveg hugsa þetta út frá þeirri hlið. Þegar þingmenn verða ráðherrar fjarlægjast þeir kannski hið hefðbundna þingmannsstarf og keyra fyrst og fremst á það hlutverk sem þeir eru í og eru kannski ekki nægjanlega uppteknir af því í hverju starf þingmannsins er fólgið, þó að þeir þekki það flestir af eigin raun. Sumir koma beint inn á þing og verða strax ráðherrar og þekkja það ekki í upphafi, dæmin eru til um það.

Mér finnst vert að hugsa um þetta. Ég er kannski líka að hugsa um kjósendur. Mér finnst að við þurfum að tala til kjósenda og hugsa út frá þeim. Ef við værum að fara í þá átt að sá aðskilnaður verði sem þarna er verið að tala um, milli ráðherra og þingmanna, þyrfti það þá ekki líka að vera þannig að þeir sem bjóða fram lista bjóði fram ráðherralista svo að menn viti þá að þeir væru að kjósa einhvern sem hugsanlega yrði þeirra kandídat sem ráðherra? Þurfum við þá ekki að taka þetta lengra í þá áttina að kjósendur hafi eitthvert val um það frekar en að kjósendur sitji allt í einu uppi með að þeirra þingmaður er ekki lengur á þingi og hefur ekki virkni sem þingmaður og það sem því fylgir, heldur er orðinn ígildi embættismanns og fjarlægari en annars væri? Þyrfti þá að vera einhver slíkur möguleiki á kjörseðli?