145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[17:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég hef tjáð mig í þessu máli er ég einmitt að tala um að kjósendur raði í forvali inn á sína lista. Sá sem lendir þar efstur hefur meira vægi en þeir sem koma neðar, hann var efstur. Það má kannski segja að það sé ígildi persónukjörs sem ég er þá að tala í kringum.

Menn horfa síðan upp á það að sá sem var efstur er, með því að verða ráðherra, sviptur atkvæðisrétti. Mér finnst það stór þáttur í þessu að þurfa að sitja uppi með það sem ráðherra að geta ekki greitt atkvæði á þingi í umdeildum málum. Þá nefni ég, til að draga upp sterka mynd, aðildina að Evrópusambandinu sem skók allt þjóðfélagið á síðasta kjörtímabili, eða að minnsta kosti á ákveðnum stöðum. Ef ég hefði á því kjörtímabili orðið ráðherra hefði ég verið mjög ósátt við að missa atkvæðisrétt minn og geta ekki kosið í því máli. (Gripið fram í.)

Mér finnst það mjög alvarlegt mál að ráðherrar fái ekki að nýta atkvæðisrétt sinn miðað við að þeir séu lýðræðislega kosnir og kjósendur treysti því að sá aðili sem er kosinn á þing fylgi þeirri stefnu eftir sem flokkurinn talar fyrir í kosningum.