145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

mótun stefnu stjórnvalda um flokkun, vernd og skráningu ræktunarlands.

102. mál
[17:23]
Horfa

Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um mótun stefnu stjórnvalda um flokkun, vernd og skráningu ræktunarlands. Flutningsmenn auk mín eru Steingrímur J. Sigfússon og Svandís Svavarsdóttir.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að setja á fót starfshóp til að móta og setja fram stefnu stjórnvalda um flokkun og vernd ræktunarlands og fylgja henni eftir með áætlun um skráningu ræktunarlands og verndar- og varðveisluráðstafanir. Skráin verði gerð og birt í samræmi við kröfur um grunngerð stafrænna landupplýsinga um Ísland og verði til stuðnings við ákvarðanir um landnotkun og breytingar á henni. Ráðherra leggi þingsályktunartillögu um flokkun, vernd og skráningu ræktunarlands fyrir 146. löggjafarþing.“

Ég ætla að fylgja þingsályktunartillögunni eftir með hluta af greinargerð sem henni fylgir.

Þessi þingsályktunartillaga var fyrst flutt á 144. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu og er því endurflutt. Eftirfarandi greinargerð fylgdi tillögunni:

„Efni þingsályktunartillögunnar ræðst að nokkru af því að í 2. gr. frumvarps til laga um breytingar á jarðalögum, nr. 81/2004, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fyrir 144. löggjafarþing, er vísað til stefnu stjórnvalda um flokkun landbúnaðarlands þegar til þess kemur að meta hvort sveitarfélagi beri að afla leyfis ráðherra fyrir breyttri landnotkun. Engin samræmd stefna um flokkun landbúnaðarlands er til hérlendis, né heldur slík flokkun sem tekur til alls landsins og byggist á samræmdum forsendum.

Í 6. gr. uppkasts að frumvarpi til laga um breytingu á jarðalögum ásamt athugasemdum sem samið var af nefnd sem Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, skipaði undir lok ársins 2012, var gert ráð fyrir mótun landnýtingarstefnu til 12 ára í þingsályktun og uppsetningu landupplýsingagrunns. Um þetta segir í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsdraganna: „Hér er á ferðinni nýmæli í jarðalögum. Grein þessi er í rauninni hryggjarstykkið í nýrri hugsun í framkvæmd jarðalaga sem sett er fram í frumvarpi þessu. Með greininni er ætlunin að tryggja að yfirvöld landbúnaðar- og skipulagsmála hafi skýra stefnu til að vinna eftir og upplýsingar um landbúnaðarland til að nota þegar ákvarðanir eru teknar sem byggja á stefnunni.“ Efni fyrirliggjandi þingmáls er í þessum anda.

Enda þótt stjórnvöld hafi ekki markað sér stefnu um flokkun landbúnaðarlands, né látið slíka flokkun fara fram, ber lagafrumvarpið sem lagt var fyrir 144. löggjafarþing þess vott að ræktunarland, þ.e. ræktað land og ræktanlegt, er í góðum metum hér á landi og talið verðmætt. Þetta sést glöggt af því að í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að leyfi ráðherra þurfi til að breyta landnotkun á „landsvæði sem er minna en 5 hektarar og er gott ræktunarlegt land, hentar vel til landbúnaðar eða vegna legu sinnar telst að öðru leyti mikilvægt vegna matvælaframleiðslu“ en jafnframt segir í athugasemdum við greinina að engin skilgreining sé til á góðu ræktunarlandi og verður þá ljóst að bagalegur skortur er á þekkingu á umfangi og verðmæti þess hluta þjóðarauðsins sem felst í ræktunarlandi. Þingsályktunartillagan felur það í sér að bætt verði úr þessu með söfnun upplýsinga um ræktunarland og birtingu þeirra.

Annað markmið þingsályktunartillögunnar er að stuðla að því að gerð verði áætlun um vernd góðs ræktunarlands í merkingunni ræktað eða ræktanlegt land, enda er það mikilvæg, takmörkuð auðlind sem ýmist getur eyðst, rýrnað eða vaxið. Mótun opinberrar stefnu um flokkun, vernd og skráningu ræktunarlands er brýnt verkefni.

Ræktunarland er takmörkuð auðlind. Í skýrslu auðlindanefndar frá árinu 2000, sem gerð var samkvæmt þingsályktun nr. 26/122 um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald, er bent á að unnt er að skilgreina náttúruna í heild sinni, eða einstaka hluta hennar, sem auðlind á grundvelli nýtingar. Ræktunarland á Íslandi er ýmist nýtt í þágu efnahagslegra markmiða eða er nýtanlegt. Það fellur því greiðlega undir skilgreininguna í fyrrnefndri skýrslu og henni hefur verið beitt í síðari umfjöllun um landnotkun á vegum hins opinbera.

Gott ræktunarland er takmörkuð auðlind hvarvetna og á það ekki síst við á Íslandi. Talið er að einungis um 600.000 hektarar lands geti talist hentugt ræktunarland hérlendis og af því hafa um 120.000 hektarar, eða því sem næst fimmtungur, þegar verið teknir til ræktunar. Gildi ræktunarlands er viðurkennt í tillögum Skipulagsstofnunar að landsskipulagsstefnu 2013–2024 þar sem lagt er til að „landbúnaðarland verði flokkað og verðmætt land fyrir ræktun verði ekki tekið til annarrar landnotkunar með ásýnd menningarlandslags og framtíðarhagsmuni í landbúnaði að leiðarljósi“. Í þessu skyni verði lagðar hömlur á skiptingu jarða og „verðmætu og samfelldu landbúnaðarlandi viðhaldið með tilliti til fæðuöryggis og varðveislu landgæða“.

Nokkuð þykir hafa borið á því undanfarið með sívaxandi frístundabyggð að landnýting í þágu matvælaframleiðslu hafi verið látin þoka fyrir öðrum hagsmunum. Jörðum hefur verið skipt milli eigenda eða hlutaðar niður í lóðir undir frístundabyggð án þess að lagt hafi verið mat á áhrif þessa á landkosti til landbúnaðar og virðast ýmsar sveitarstjórnir, sem þarna fara með skipulagsvald, ekki leggja mikla áherslu á varðveislu ræktunarlands. Þessari þingsályktunartillögu er stefnt gegn slíku skeytingarleysi um þá mikilvægu auðlind sem ræktunarland er hér á landi sem annars staðar þar sem slíkt land er að finna.

Stórfelld kaup eða langtímaleiga erlendra aðila á ræktunarlandi hefur einkum átt sér stað utan Evrópu. Hlutafélag í eigu sænskra fjárfesta, Black Earth Farming Ltd., hefur þó gerst umsvifamikill landeigandi í Evrópuhluta Rússlands og ræktar þar bæði korn og orkujurtir í miklum mæli. Hérlendis eru lítil brögð að eignarhaldi erlendra aðila á jarðeignum. Haustið 2012 voru einstaklingar með erlent ríkisfang eigendur eða meðal eigenda að 1,33% jarða og einungis 0,37% jarða voru í eigu erlendra ríkisborgara að öllu leyti, samanber svar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar um eignarhald bújarða á 141. löggjafarþingi. Svarið miðast við fjölda bújarða, ekki er lagt mat á landkosti eða notagildi á borð við ræktunarmöguleika. Nokkuð hefur hins vegar borið á því á undanförnum áratug eða svo að innlend fyrirtæki og einstaklingar hafi safnað að sér jarðeignum, einkum jörðum sem fylgja veiði- og vatnsréttindi eða réttur til búvöruframleiðslu. Sumir þeirra aðila sem voru hvað umsvifamestir á þessum vettvangi urðu reyndar gjaldþrota eftir efnahagshrunið haustið 2008, svo sem fyrirtækið Lífsval, og lentu eignir þeirra í annarra höndum. Dótturfélag útgerðarfélagsins Skinneyjar–Þinganess festi t.d. kaup á kúabúi Lífsvals í Flatey í Austur-Skaftafellssýslu, sem er meðal stærstu rekstrareininga í íslenskum landbúnaði. Hlutdeild fyrirtækja í landbúnaði og landnotkun eykst því um þessar mundir og er við því að búast að það kalli á ýmsar breytingar, enda rekstur fyrirtækjanna að ýmsu leyti frábrugðinn starfsemi einyrkja í hefðbundinni landbúnaðarframleiðslu.

Ég ætla í lokin að koma aðeins inn á vernd auðlindarinnar.

Margt í þróun síðustu ára og áratuga hefur orðið til þess að beina athygli manna að hinni umfangsmiklu gróður- og jarðvegseyðingu sem orðið hefur víða um heim á sama tíma og fólksfjölgun er hraðari en nokkru sinni fyrr. Um 1800, við upphaf iðnbyltingarinnar, var heildarfjöldi mannkyns nálægt 1 milljarði, árið 1987 voru um 5 milljarðar manna á jörðinni, árið 1999 var fjöldinn orðinn 6 milljarðar og 7 árið 2011. Er búist við að árið 2024 fari heildarfjöldi mannkyns yfir 8 milljarða. Það er til marks um það hversu ör fólksfjölgun síðustu áratuga hefur verið að 1970 var mannfjöldi á jörðinni aðeins um helmingur þess sem hann er orðinn nú. Á sama tíma og jarðarbúum fjölgar örar en nokkru sinni fyrr hefur víða orðið gróður- og jarðvegseyðing sem verður ávallt til þess að rýra afkomumöguleika fólks en reynist þeim mun tilfinnanlegri sem jarðarbúar verða fleiri og þörfin fyrir matvæli meiri. Af þessum sökum hafa mörg ríki gripið til sérstakra ráðstafana til verndar og uppbyggingar gróðri og jarðvegi. Hérlendis er starfsemi í Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins dæmi um atbeina hins opinbera í þessa veru sem hefur skilað mikilsverðum árangri á sviði uppgræðslu, en sérstakar ráðstafanir til verndunar og viðhalds ræktunarlands hafa ekki verið gerðar.

Benda má á að í Noregi er landbúnaður víða stundaður við skilyrði sem líkjast því sem hér gerist með tilliti til veðurfars. Ræktarland í Noregi er aðeins lítill hluti landsins eins og hér á landi, en tæp 3% af heildarflatarmáli landsins, eða því sem næst 11.000 ferkílómetrar, eru ræktað land.

Enda þótt ekki séu aðgengilegar nægilega ítarlegar upplýsingar um stærð og staðsetningu ræktunarlands á Íslandi hefur verið aflað mikilvægrar vitneskju um gerð, flokkun og útbreiðslu jarðvegs þar sem alþjóðlegum flokkunarreglum hefur verið beitt og á grundvelli þessa hefur verið gert stafrænt íslenskt jarðvegskort. Í fyrstu var þetta kort hluti af verkefninu Nytjaland á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands en gagnagrunnur sem það byggðist á var fluttur til Fasteignamats ríkisins og þaðan til Þjóðskrár Íslands með samruna stofnananna árið 2010.

Ég vil í lokin ítreka að ég tel þetta mál vera þannig vaxið að þingheimur allur ætti að geta sameinast um það og mér finnst það vera eitt af þeim málum sem ætti að geta komið frá þinginu og hlotið afgreiðslu án þess að það væri að þvælast fyrir pólitíkinni. Talandi um ráðherraræði, völd þingsins og áhrifamátt þingsins tel ég að þetta sé dæmi um að ýmis mál geta vaknað hér á þingi og eru fullburðug til þess að hljóta góða meðferð í nefndum og ganga síðan til afgreiðslu og fá jákvæða afgreiðslu og ekki þurfi alltaf að koma til kasta framkvæmdarvaldsins þegar þau eru lögð fram. Ég vil líka undirstrika að mjög brýnt er við vinnslu mála sem þessara og annarra á þingi að auðvitað þarf þingið líka að taka til sín völd og sérfræðiþjónustu og fá meiri stuðning til þess að undirbúa bæði þingsályktunartillögur eins og hér hefur verið kynnt með ítarlegri greinargerð. Ég þakka fyrir þá vinnu sem lögð var í að semja þessa miklu og góðu greinargerð sem fylgir þessari þingsályktunartillögu um mótun stefnu stjórnvalda um flokkun og vernd og skráningu ræktunarlands sem lætur kannski ekki mikið yfir sér en er stórmál þegar farið er yfir þá greinargerð sem tillögunni fylgir.