145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

bann við mismunun.

144. mál
[17:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að koma aðeins inn í þessa umræðu.

Við erum hér með samning Sameinuðu þjóðanna. Við erum með barnasáttmála og ýmislegt fleira, einhvern veginn segjum við já og gerum svo lítið með það.

Ég styð þær breytingar sem lagðar eru til hér og mér finnst þær bara svo sjálfsagðar að þær hefðu auðvitað fyrir löngu átt að vera komnar inn í regluverkið okkar.

Mig langar örstutt til að fara yfir þetta af því að við höfum verið að ræða, hvað á ég að segja, mismunun gagnvart fötluðu fólki af og til frá því að ég kom á þing. Misbresturinn er mjög víða. Skemmst er að minnast þess þegar við vorum að ræða almennu hegningarlögin, þ.e. ofbeldisfrumvarpið sem við höfum verið að fjalla um í allsherjar- og menntamálanefnd. Ekki er tekið sérstaklega fram að skilgreina ofbeldi gagnvart fötluðum þrátt fyrir að við séum með niðurstöðu úr rannsókn, sérstaklega um ofbeldi gegn fötluðum konum, þá á þetta við um fatlað fólk yfirleitt. Hefur ekki þótt ástæða til að setja það inn í lagatextann, sem mér þótti miður en reyndi að koma því að. En álitið er að þetta eigi við alla og með því að draga einhvern einn hóp til hliðar þá sé verið að búa til kannski meiri flækju en minni. Ég er því ekki endilega sammála vegna þess að mér finnst, einmitt í ljósi þess sem hér var farið yfir, svo mikil brotalöm í kerfinu.

Eins og hv. þingmaður rakti þarf að breyta almennu hegningarlögunum og breyta þarf mun fleiri lögum til að þetta megi ná fram að ganga.

Í þeirri skýrslu sem ég ætla að fá að vitna til kemur fram, virðulegi forseti, að niðurstöður þeirrar rannsóknar sýndu fram á að ofbeldi gegn fötluðum konum væri til dæmis nátengt félagslegri aðstöðu þeirra og þar með ákveðnu valdaleysi þar sem fatlaðar konur þyrftu að reiða sig á stuðning annarra í aðstæðum sem einkenndust af slíku valdaójafnvægi og oft ættu þær afar erfitt með að segja frá.

Fram kemur líka að ofbeldi gegn fötluðum konum er auðvitað margs konar. Það birtist í orðum, gerðum fólks og getur falist í hótunum, þvingunum, aðgerðaleysi, áreitni eða hverju svo sem er. Þær konur sem rannsóknin beindist að höfðu einmitt orðið fyrir mismunandi birtingarmyndum af ofbeldi. Það var gjarnan langvarandi og það átti sér líka stað á hinum ýmsu stöðum og ekki bara einn gerandi heldur gjarnan margir.

Talað var um kynferðislegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi eða fjárhagslegt ofbeldi, t.d. þegar einhver neitar fötluðu fólki um aðgang að fjármunum þess eða svíkur af því fé. Ég hef orðið þess áskynja að þegar fatlaður einstaklingur fer í fjármálastofnun og ætlar að ná sér í peninga þá er tregða, eða það var í því tilfelli, til að afgreiða viðkomandi eingöngu á grundvelli fötlunarinnar. Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt. Það er líka þekkt að ekki er talað við hinn fatlaða heldur kannski einhvern annan sem í kringum hann er. Orðræðunni er ekki beint að viðkomandi. Í því felst ákveðin niðurlæging. Mér þykir veruleg ástæða til að við lítum yfir þetta.

Vinna okkar við frumvarpið snerist um heimilisofbeldi almennt. Það er auðvitað farið yfir mjög vítt svið í þessu frumvarpi en ég ákvað að taka það aðeins út. Það kom mér verulega á óvart að verið er að yfirheyra fatlað fólk í Barnahúsi. Mér finnst það svo niðurlægjandi og mér finnst það svo ómögulegt. Ég skil ekki að við höfum ekki fundið flöt á því að útbúa viðunandi aðstæður. Ég meina, fólk er alveg heilbrigt í kollinum þó að það sé fatlað. Eins ef það er eitthvað þroskaskert. Þetta er fullorðið fólk. Það er jafn óheppilegt og óeðlilegt að það sé yfirheyrt í slíku rými.

Nefndarformaður allsherjar- og menntamálanefndar hefur heitið mér því að við munum ræða þessi mál sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem átti sér stað í nefndinni og jafnvel að við gerum okkur einhverja vettvangsferð í því sambandi.

Ég tel að þetta sé hið besta mál, að við finnum því farveg, og ég vona svo sannarlega að þingið samþykki það. Hér er m.a. vitnað til almennra hegningarlaga, 180. gr., þar sem talað er um að fötlun bætist við upptalningu ólögmætrar og refsiverðrar mismununarástæðu. Svo er 233. gr. a, sem er akkúrat um það sem ég var að nefna, þ.e. að hæðast að einhverjum eða gera lítið úr viðkomandi með einhverjum ummælum, framkomu eða hvað það nú er. Auðvitað er þetta afar mikilvægt og þetta er alveg þekkt.

Mig langar líka að tala um annað sem er í frumvarpinu, þ.e. 3. gr., þar sem fatlað fólk stendur gjarnan höllum fæti á vinnumarkaði og getur átt erfitt með að standa vörð um réttindi sín eins og sagt er og verður gjarnan fyrir einhverri mismunun. Mér finnst afar mikilvægt mál að við reynum að skýra þessi réttindi.

Vitnað er til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem kveðið er sérstaklega á um rétt fatlaðs fólks til þess að starfa án aðgreiningar á vinnumarkaði. Við höfum líka verið að ræða það töluvert hér á þingi, þ.e. atvinnulífið. Það er einhvern veginn ekki tilbúið til að taka á móti, virðist vera, örorkulífeyrisþegum, þ.e. fólki með skerta starfsgetu nema hreinlega að fá borgað með því að einhverju leyti. Sem er líka niðurlægjandi vegna þess að einstaklingur getur auðvitað haft starfsþrek þó að það sé ekki 100%. Sá einstaklingur gæti unnið að hluta til. En vinnumarkaðurinn er ekki ginnkeyptur fyrir því fólki, ekki frekar en fötluðu fólki, held ég. Það er allt of lítið um það, finnst mér, að við sjáum fatlað fólk á hinum almenna vinnumarkaði við þau störf sem það getur svo sannarlega starfað við og gengið er einhvern veginn út frá því oft og tíðum að ef viðkomandi er til dæmis líkamlega fatlaður þá geti hann ekki unnið störf sem kalla kannski fyrst og fremst á skerpu í kollinum.

Frú forseti. Ég ætlaði ekki að hafa þetta langt. Mig langaði bara aðeins að koma inn á þetta vegna þess að mér finnst sú umræða mikilvæg sem við höfum átt og þá sérstaklega um ofbeldi gegn fötluðum konum og mismunun sem þær verða fyrir í réttarkerfinu. Það er auðvitað eitthvað sem maður hefur verið að ræða í þeirri nefnd sem ég starfa í og mig langaði aðeins að skerpa á þeim þætti.