145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

samningsveð.

576. mál
[18:02]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um samningsveð, en sú lagabreyting hefur um nokkra hríð gengið undir heitinu lyklafrumvarpið. Þegar slíkt frumvarp var fyrst lagt fram hér á Alþingi, af fyrrverandi þingmanni Lilju Mósesdóttur, var ekki mikill áhugi á að gera það að lögum. Helsta gagnrýnin var þá sú að það ætti að geta gilt afturvirkt. Málið hefur farið fyrir margar nefndir frá því ég kom inn á þing og finnst mér nauðsynlegt — í ljósi þess hversu illa hefur gengið að fá slíkt frumvarp samþykkt, með þeim rökum að ómögulegt sé að láta það gilda afturvirkt — að leggja frumvarp fram án slíks ákvæðis. Mér finnst nauðsynlegt að við höfum lagasetningu af þessu tagi sem réttindavernd fyrir þá sem taka húsnæðislán.

Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, upp úr frumvarpi til laga um breytingu á lögum um samningsveð, nr. 75/1997, um fasteignaveðlán og fullnustu kröfu. Flutningsmenn eru Birgitta Jónsdóttir, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson.

„1. gr. Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Lánveitandi, sem í atvinnuskyni veitir einstaklingi lán til kaupa á fasteign sem ætluð er til búsetu og tekur veð í eigninni til tryggingar endurgreiðslu lánsins, getur ekki leitað fullnustu kröfu sinnar í öðrum verðmætum veðsala en veðinu. Krafa lánveitanda á hendur lántaka skal falla niður þegar lánveitandi hefur gengið að veðinu, enda þótt andvirði þess við nauðungarsölu dugi ekki til greiðslu upphaflegu kröfunnar. Óheimilt er að semja á annan veg en greinir í ákvæði þessu.“

Í greinargerð segir:

„Frumvarp sambærilegt þessu sem hér lítur dagsins ljós var fjórum sinnum lagt fram á síðasta kjörtímabili án þess að það næði fram að ganga. Efnislegar breytingar frá fyrra frumvarpi eru óverulegar utan þess að aðeins er gert ráð fyrir að ákvæðið nái yfir lánasamninga sem til er stofnað eftir að frumvarpið öðlast gildi að lögum.

Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi hér á landi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, þ.e. viðkomandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær. Frumvarpið er þannig mikilvægur liður í því að dreifa áhættutöku í fasteignalánum og færa hérlenda lánastarfsemi úr því horfi að áhættan sé einhliða á hendi lántaka.“

Um úrræðið segir:

„Með frumvarpi þessu er lögfest nokkurs konar efndaígildi (l. datio in solutum) í fasteignalánum. Efndaígildi lýsir sér þannig að kröfusambandi kröfuhafa og skuldara lýkur með öðrum hætti en upphaflega er að stefnt þar sem kröfuhafi viðurkennir aðra greiðslu fullnægjandi. Þannig gerir frumvarp þetta ráð fyrir að kröfuhafa samkvæmt samningi um fasteignalán, þar sem endurgreiðsla lánsins er tryggð með veði í hinni keyptu fasteign, verði gert að samþykkja að afhending umræddrar eignar í sínar hendur teljist vera fullnaðargreiðsla af hálfu skuldara sem jafngildi því að skuldbindingin hafi verið efnd að fullu. Ákvæðið er orðað með þeim hætti að ekki er gert ráð fyrir að á það reyni nema í neyð, þ.e. þegar greiðslufall hefur orðið af hálfu skuldara og lögbundinn réttur kröfuhafa til að neyta fullnusturéttar síns er orðinn virkur.

Í skýrslu London Economics frá árinu 2012 um úrræði til handa neytendum í fjárhagsörðugleikum er ítarlega fjallað um efndaígildi á borð við það sem hér um ræðir. Þar kemur fram að sambærileg úrræði hafi lengi þekkst í mörgum ríkjum Bandaríkjanna og hafi frá fjármálahruni rutt sér til rúms í Evrópu, einkum á Spáni.“

Um nauðsyn og kosti lagasetningar segir, með leyfi forseta:

„Brýn nauðsyn þess að lögfesta úrræði á borð við það sem frumvarp þetta mælir fyrir um kom bersýnilega í ljós í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 þegar gengi krónunnar hríðféll með þeim afleiðingum að gengistryggðir lánasamningar urðu skuldurum ofviða. Úrræðaleysið sem blasti við neytendum olli fordæmalausu uppþoti í samfélaginu sem dró dilk á eftir sér. Nauðsynlegt er að læra af reynslunni og innleiða úrræði til að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig. Að mati flutningsmanna frumvarps þessa yrði til mikilla bóta að styrkja stöðu skuldara að fasteignaveðlánum með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um. Auk þess að færa skuldurum í hendur nauðsynlegt úrræði til að mæta ófyrirséðum fjárhagsörðugleikum mundi sú áhættudreifing sem í því felst hvetja lánastofnanir til vandaðri lánastarfsemi. Þannig gerði frumvarpið að verkum, yrði það að lögum, að hagur lánveitanda og skuldara yrði sameinaður umfram það sem nú er, með það að markmiði annars vegar að skuldari geti staðið undir afborgunum af fasteignaláni sínu og hins vegar að raunverulegt virði fasteignar sé ekki miklum mun minna en virði lánasamningsins heldur sambærilegt. Þannig yrði dregið úr líkunum á myndun fasteignabólu í líkingu við þá sem varð á árunum fyrir hrun. Til langs tíma litið leiddi breytt umhverfi að þessu leyti til vandaðri lánastarfsemi samfélaginu öllu til hagsbóta.“

Þegar ég var nýkomin á þing og við vorum að semja um hvaða mál væru í forgangi ákváðum við í Borgarahreyfingunni að leggja mikla áherslu á áðurnefnt frumvarp Lilju Mósesdóttur út af því að við urðum þess vör að mikið óréttlæti gekk yfir marga lántakendur þar sem þeir höfðu bæði misst eignina sína og sátu jafnframt uppi með gríðarlega mikið skuldafjall. Í kringum alla þá geðveiki sem var í kjölfar hrunsins voru ansi mörg uppboð þar sem mjög lágar upphæðir voru boðnar í húsnæði sem var margfalt verðmætara en uppboðið gaf. Segjum til dæmis að þú hafir átt eign sem var 25 millj. kr. virði, þá voru 18 millj. kr. eftir af skuld, húsnæðið var boðið upp á 2 millj. kr., þá sastu bæði eftir heimilislaus og skuldaðir áfram 18 millj. kr., þannig að skuldafangelsið var algert og engin áhætta hjá þeim sem veitti fasteignalánin.

Ég held því að þetta sé gríðarlega mikil réttarbót fyrir þá sem taka húsnæðislán á Íslandi. Eins og kom fram í frumvarpinu sjálfu mun það vonandi verða til þess að lánveitingar verði mun vandaðri.

Virðulegi forseti. Í dag er komin ný fasteignabóla. Válynd veður eru í aðsigi þegar kemur að efnahagsmálum á heimsvísu. Kína er í miklum samdrætti og það mun hafa gríðarlega mikil áhrif um heim allan. Þá er jafnframt vert að benda á að það er líka slæmt ástand í Japan og ef Bretar ganga úr Evrópusambandinu verður mun dýpri kreppa í Evrópu en margir hafa séð fyrir. Ég held að það sé mjög brýnt að byrgja brunninn áður en barnið fellur ofan í hann aftur og mikilvægt að við lærum af hruninu.

Þegar ég var að taka saman upplýsingar fyrir þessa ræðu þá fór ég inn á hina frægu leitarvél Google og gúglaði lyklafrumvarp. Þar fann ég mjög athyglisverða sögu. Ég fann nokkrar sögur og nokkur viðtöl og nokkuð margar yfirlýsingar frá núverandi ríkisstjórn. Fyrir kosningar var því nefnilega lofað að lyklafrumvarp yrði lagt fram og ég ætla að grípa ofan í frétt frá 3. október 2013, með leyfi forseta:

„Lyklafrumvarp verður lagt fram á haustþingi, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni í gær að frumvarpið yrði lagt fram á næstu vikum. Frumvarpið er undir stjórn félags- og húsnæðismálaráðherra og innanríkisráðherra og miðar að því að gera eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veð stendur ekki undir.

Í ræðu forsætisráðherra kemur fram að um tímabundna aðgerð sé að ræða til þess að leysa vanda tengdan afleiðingum efnahagshrunsins. Þá er einnig unnið að útfærslu leiða til að aðstoða eignalausa einstaklinga við að greiða kostnað þegar þeir óska eftir gjaldþrotaskiptum.

Þetta er í takt við aðgerðaráætlun um skuldavanda heimilanna eins og Sigmundur Davíð sagði í stefnuræðu sinni á sumarþingi.

Í ræðu Sigmundar Davíðs í gær kom einnig fram að sérstök verkefnisstjórn mun í byrjun næsta árs skila tillögum um framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Þar munu koma fram tillögur um hagkvæmasta fyrirkomulagið við fjármögnun almennra húsnæðislána, leiðir til að tryggja virkan leigumarkað og tillögur um hvernig best verði staðið að skilvirkum félagslegum úrræðum fyrir þá sem þess þurfa með.“

Hinn 8. október sama ár, 2013, birtist önnur frétt, með leyfi forseta:

„Innanríkisráðherra og félagsmálaráðherra munu í næstu viku eða þarnæstu skila ráðherranefnd um skuldamál heimilanna tillögum sínum varðandi hið svokallaða lyklafrumvarp.“

Ekkert hefur nú bólað á þessu.

Á vef Sjálfstæðisflokksins er grein eftir núverandi hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson, en hún er rituð í febrúar 2012. Við grípum ofan í hluta greinarinnar sem hefur millifyrirsögnina Lyklafrumvarpið, með leyfi forseta:

„Við verðum því að vita nákvæmlega hversu stór þessi hópur er, þ.e. þeir sem ekki geta staðið undir greiðslum af 110% veðsetningunni. Þessi hópur getur ekki beðið eftir því að launin batni og húsnæðið hækki í verði, en sú þróun mun bæta hag þeirra sem eiga fasteignir og skulda verðtryggð lán í þeim. Eitt af því sem ég tel að við getum gert er að leiða í lög hugmyndir okkar sjálfstæðismanna um svokallað lyklafrumvarp. Með því fengi skuldari þann rétt að geta skilað húsnæði sínu og fengið þar með allar þær skuldir sem á henni hvíla felldar niður.“

Forseti. Ég hef enn ekki séð hið meinta lyklafrumvarp sem báðir ríkisstjórnarflokkarnir hafa minnst á að nauðsynlegt væri að leggja fram eða að til stæði að leggja fram. Ég er ekki ein um að hafa beðið eftir því að eitthvað gerist, því ef maður fer inn á vefinn spyr.is er sérstakur liður um lyklafrumvarpið undir yfirskriftinni: Lyklafrumvarpið og biðin eftir svari frá innanríkisráðuneytinu. Þann 28. maí 2014 er þetta skrifað:

„Fyrirspurnin um lyklafrumvarpið svokallaða er að verða eins og sagan endalausa. Fyrst lofaði aðstoðarmaður ráðherra svörum í janúar árið 2014. Spyr.is birti það loforð í desember. Síðan gekk ekkert að fá svör í janúar, þannig að febrúar, mars og apríl ítrekaði spyr.is fyrirspurnina margsinnis, bæði í tölvupósti og símleiðis. Fyrir páska bárust spyr.is síðan nýjar upplýsingar: Jú, niðurstöður mundu liggja fyrir vikuna eftir páska.

Aftur leið og beið og ekkert bólaði á þegar lofuðum upplýsingum.

Spyr.is fór því aftur að ítreka fyrirspurn, enda hafa fjölmargir lesendur sent inn fyrirspurn um lyklafrumvarpið, ekki síst nú þegar opnað hefur verið fyrir umsókn um skuldaleiðréttingu stjórnvalda. Tekið skal fram að innanríkisráðuneytið hefur frá upphafi starfssemi spyr.is verið eitt þeirra ráðuneyta sem svarar almennt fljótt og vel.

Í upphafi þessarar viku fékk spyr.is aftur tölvupóst frá aðstoðarmanni ráðherra. Aðstoðarmaður var þá staddur erlendis, en ætlaði að reyna að senda lesendum spyr.is svör fyrir helgi.

Því standa vonir spyr.is nú til þess að geta svarað þessari margítrekuðu fyrirspurn á allra næstu dögum og við biðjum lesendur okkar velvirðingar á því hversu sein svörin eru að berast. Mörg ykkar hafa verið að senda inn þessar fyrirspurnir í ríflega hálft ár.

Stuttu fyrir páska gaf innanríkisráðuneytið spyr.is þær upplýsingar að gera mætti ráð fyrir að línur mundu skýrast er varða lyklafrumvarpið svokallaða í vikunni eftir páska. Spyr.is hefur síðan þá ítrekað spurst fyrir um stöðu mála og mun halda því áfram næstu daga (sjá áðurbirta svargrein frá 16.04.2014). Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um hið svo kallaða lyklafrumvarp mun liggja fyrir dagana eftir páska.“

Þannig heldur þetta áfram viðstöðulaust, forseti, og er alveg ljóst að núverandi ríkisstjórnarflokkar þurfa aðstoð við að koma þessu máli á dagskrá. Það er einmitt út af þessum loforðum og áhyggjum ríkisstjórnarflokkanna af stöðu þeirra sem lenda í verulegum vandræðum með greiðslu af húsnæðislánum sem ég ákvað að leggja lyklafrumvarpið fram. Því miður fékk ég ekki neina þingmenn frá stjórnarflokkunum til að vera með á því frumvarpi þrátt fyrir mikil og gild loforð fyrir kosningar og rétt eftir kosningar, og finnst mér það miður.

Ég er sannfærð um að ef okkur tekst, ef við berum gæfu til, að láta þetta frumvarp verða að lögum á þessu þingi eða því næsta þá muni það laga lánamarkaðinn hér. Það er nauðsynlegt. Sumir hafa sagt að ekki sé gott að gefa fólki kost á að geta gengið frá eigninni sinni, en ég get fullyrt að í þeim löndum þar sem slík lög hafa verið í gildi lengi hefur það aldrei verið freistnivandi. Það hefur aldrei verið vandamál að fólk hreinlega hlaupi frá skuldum sínum og ekki hefur það heldur orðið til þess að erfiðara verði að taka lán með veði. Það er nú einu sinni þannig að ef verið er að lána út á veð í húsnæði sem er langt umfram virði eignar þá er eitthvað verulega mikið að.