145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[19:36]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið.

Af því að hv. þingmaður hélt sig að einhverju marki við samlíkinguna við brennivín í búðir þá hefur sagan nú kennt okkur að það dugar ekki til. Það skilar engu. Þá fer þetta allt undir radar og við höfum ekkert eftirlit með því og áttum okkur engan veginn á umfanginu.

Gerðar hafa verið þó nokkuð góðar rannsóknir í Svíþjóð og í Danmörku. Í Danmörku er farin sú leið að setja spilastofur undir eitt eftirlitsstjórnvald, í líkingu við það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson lagði til og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Ég tel að það yrði til bóta.

Spilamennska á netinu er það sem er vandinn í dag. Í Svíþjóð er talið að um 2% fólks eigi við spilafíkn að stríða og það er hárrétt sem hv. þingmaður nefndi um að það er aðallega ungt fólk sem um er að ræða og aðallega tengt netinu.

Ég staðfesti það sem ég kom inn á í ræðu minni að í frumvarpinu er lagt til að aldurstakmarkið verði 21 ár. Auðvitað munu margir spyrja um það og í umfjöllun í hv. nefnd mun koma fram af hverju aldurstakmarkið er ekki haft lægra. En það er það aldurstakmark sem Danir fóru af stað með. Það er betra að byrja með frekar stífar reglur og sjá hverju það skilar.

Ég held að það sé alltaf betra að byrja varlega, að það sé ekki lausnin að opna alveg upp á gátt. Það er engan veginn verið að leggja það til í frumvarpinu, heldur þvert á móti. Verið er að leggja til að þessum málum verði skapaður lagarammi sem ekki er til staðar í dag þannig að við höfum færi á að halda uppi eftirliti og fylgjast með því hvernig þessi starfsemi virkar. (Forseti hringir.) Það er meginmarkmið þessara laga. Ég ætla rétt í lokin að nefna varðandi ráðstefnuferðamennskuna að þegar við höldum ráðstefnur þurfum við að tikka í boxin varðandi það hvaða þjónusta er í boði.