145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[19:45]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að ekkert okkar hafi svarið við þeirri netlausn, en ég held samt að þetta sé fyrsta skrefið. Við erum að búa til umgjörð til að ná þessu upp á yfirborðið. Þegar það er ekki á yfirborðinu held ég að mjög erfitt sé og nánast ógerlegt að kortleggja vandann og komast að því hversu umfangsmikill hann er. Ég held að það sé nánast ómögulegt.

Þetta frumvarp er um hús eða starfsemi sem tekur á móti fólki sem vill stunda svona starfsemi, sækir í hana hvort sem það gerir það þar sem hún er ólögleg eða á netinu. Við höfum engin tæki í dag til að fylgjast með þeim sem síðan sannarlega lenda í vanda. Það eru þeir einstaklingar sem við þurfum að hjálpa. Ég held að við munum ekki ná til þeirra nema með svona tillögu eða svipaðri tillögu, þótt það sé ekki nema bara fyrir upplýsingarnar.

Síðan held ég að hægt væri að byggja á svona lausn til að útvíkka það sem nefnt er hérna húsbaukur eða þjórfé yfir í það sem væru rafpeningar eða það sem fer milli neytandans og hússins á netinu. Það er það sem er stærsta vandamálið og held ég að þetta frumvarp geti leitt okkur að því.