145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Síðar í dag fer fram umræða um tryggingafélögin og þá ákvörðun flestra þeirra að greiða sér himinháar arðgreiðslur úr svokölluðum bótasjóðum.

Fyrir stuttu var mikil umræða um annars konar fjármálagjörning sem snerti Borgun. Þær umræður eru aðeins angi af mun stærra og raunar miklu mikilvægara máli, hvernig þjóðfélagi við viljum lifa í í framtíðinni. Hvort við viljum lifa í þjóðfélagi misskiptingar þar sem þeir auðugu og betur stæðu maka krókinn að vild. Hvort við viljum búa í þjóðfélagi þar sem fámennur hópur einstaklinga getur nánast hagað sér að vild í krafti stöðu sinnar. Hvort við viljum búa í þjóðfélagi óréttlætis og ógegnsæis. Hvort við viljum búa í þjóðfélagi þar sem einstök fyrirtæki geta nánast hagað sér að vild gagnvart viðskiptavinum, vegna stærðar sinnar og fákeppni á markaði. Hvort við viljum snúa aftur til áranna fyrir hrun. Það er spurningin.

Í bankahruninu 2008 var hávær krafa um eitthvað sem kallaðist nýja Ísland. Það var helst á baráttumönnum að skilja að byggja ætti upp nýtt þjóðfélag þar sem allir væru nánast jafnir, gæðum þjóðfélagsins yrði skipt á jafnan og væntanlega heiðarlegan hátt. Sú hugmynd var auðvitað ekkert annað en útópía. Flestir vilja alltaf meira, meiri lífsgæði, hærri laun, betri bíl, stærra hús, betri stöðu.

Þeir sem auðguðust vel fyrir bankahrun eru ekki búnir að gleyma ljómanum sem var yfir öllu. Í dag eru komnar nýjar persónur og leikendur á sviðið en hugmyndafræðin er sú sama og hún byggist á eftirfarandi: Ég, um mig, frá mér, til mín.

Útópían er falleg en óraunhæf. Okkur ber hins vegar að gera það sem við getum til að þjóðfélagið sé betra og sanngjarnara. Smæð samfélagsins og fákeppni kallar á nýtt regluverk á fjármálamarkaði. Það er ekki sjálfsagt að allt það sem virkar (Forseti hringir.) í margfalt stærri samfélögum gangi hér. Verum óhrædd við að gera breytingar. Það er krafa samfélagsins.


Efnisorð er vísa í ræðuna