145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ríkið kaupir og þróar jafnvel innan sinna stofnana ýmsan hugbúnað, bæði tilbúinn og sérsniðinn. Stundum er hann keyptur frá aðilum á markaði en þó nokkuð oft er hugbúnaður sérsmíðaður fyrir hinar ýmsu stofnanir ríkisins. Til er hugtakið opinn hugbúnaður, á ensku „open source“ hugbúnaður. Andstæða hugbúnaðarins er lokaður hugbúnaður, á ensku „closed source“. Opinn hugbúnaður er í mun meiri almennri notkun en margir átta sig á, bæði meðal fagmanna í tölvugeiranum og leikmanna. Sennilega er frægasta dæmið um útbreiddan opinn hugbúnað vafrinn Firefox. Mac OS X stýrikerfið á Apple-tölvum byggir einnig á opnum hugbúnaði þótt stýrikerfið sjálft sé að miklu leyti lokað. Munurinn á opnum hugbúnaði og lokuðum er aðallega sá að opinn hugbúnaður er opinn fyrir rýni almennings. Það má líkja honum saman við opið bókhald á móti lokuðu bókhaldi. Rétt eins og þegar kemur að opnu bókhaldi er ýmislegt sem þarf að huga sérstaklega að við birtingu kóða, en óhjákvæmilega er opinn hugbúnaður gagnsærri en lokaður.

Opinn hugbúnaður hefur ýmsa kosti fram yfir lokaðan og veitir tækifæri sem lokaður hugbúnaður getur ekki veitt. Sem dæmi: Eins og bókhaldari sem veit að bókhaldið er opið þá vandar forritari sig væntanlega meira vitandi að kóðinn verður opinn fyrir rýni. Í öðru lagi geta áhugamenn og nemendur sem læra forritun eða annað slíkt lært af kóðanum. Áhugamenn geta stungið upp á betrumbótum eða lagt til tillögur til úrbóta í formi kóða. Hægt er að sannreyna virkni hugbúnaðarins meðal leikmanna. Ég vildi stundum óska þess að reiknivélar bankanna væru opnar því oft átta ég mig ekki alveg nákvæmlega á hvernig þær virka.

Það eru góðar lýðræðislegar ástæður fyrir því að setja reglur eða jafnvel lög um það hvernig skuli standa að hugbúnaðargerð ríkisins með tilliti til þess hvort hugbúnaðurinn sé opinn eða lokaður.

Virðulegi forseti. Í Bandaríkjunum eru dæmi um slíkar kvaðir. Því legg ég til, með hliðsjón af þessu öllu, að hugbúnaður sem ríkið þróar eða kaupir sérsmíðaðan verði að jafnaði opinn.


Efnisorð er vísa í ræðuna