145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég ætla að fá að koma með endurtekið efni. Þannig er málum háttað að hér á að vera starfandi þingskapanefnd. Þingskapanefnd hittist aldrei. Það eru mjög mörg mál sem þarf að laga varðandi innra skipulag í þessari stofnun. Þrátt fyrir að kallað hafi verið eftir því að þingskapanefnd fundaði reglulega til að fara yfir ýmis samþættingaratriði sem þyrfti að hafa í huga eru aldrei neinir fundir í þingskapanefnd. Það strandar helst á því að aðeins eitt mál virðist vera á dagskrá í þingskapanefnd og það er hvort hægt sé að finna leiðir til að stöðva málþóf. Þingskapanefnd á auðvitað að fjalla um alls konar aðra hluti. Í nefndum sem ég hef verið í hefur ítrekað verið rætt um mikilvægi þess að til dæmis fundirnir séu ritaðir þannig að þingmenn fái aðgang að þeim ef þeir komast ekki á fundina, sem sagt ritun á því hvað gerist á fundinum og hvað kemur fram. Það er algjört og fullkomið ógagnsæi í öllum nefndastörfum á þinginu og mér finnst það óboðlegt.

Ekki má taka upp fundina þannig að maður geti látið einhvern annan „transkripta“ fundina og ritarar rita einvörðungu fyrir sig en ekki þingmenn. Ég verð því að skora á aðra félaga mína í þingskapanefnd að þrýsta á forseta um að byrjað verði að halda reglulega fundi í nefndinni þannig að við náum að breyta einhverju áður en þessu kjörtímabili lýkur.

Forseti. Ég skora á formann nefndar að kalla saman þingskapanefnd svo að við getum farið yfir öll þau álitamál sem koma upp á hverjum einasta degi á nefndarfundum.


Efnisorð er vísa í ræðuna