145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Þeirri hugmynd vex nú mjög ásmegin að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Á dögunum sótti ég mjög athyglisverða og skemmtilega ráðstefnu sem haldin var í Hörpu um þetta mikilvæga málefni. Í þessari viku var undirrituð viljayfirlýsing fjölmargra náttúruverndarsamtaka og útilífs- og útivistarsamtaka þess efnis. Fram fer á alnetinu undirskriftasöfnun til stuðnings hugmyndinni og er óhætt að fullyrða að viðtökurnar hafa verið mjög góðar.

Það vill svo til að um þessar mundir er í þinglegri meðferð í þinginu tillaga frá þingflokki Vinstri grænna sem gerir ráð fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Ég held að þetta sé kjörið tækifæri fyrir þingið til að taka undir þann vaxandi stuðning við þessa hugmynd sem er í samfélaginu og reyna að gera þetta að sameiginlegu máli í þinginu.

Við fjöllum um þetta mál í umhverfis- og samgöngunefnd. Umsagnir hafa verið mjög jákvæðar. Þetta er ákveðin tegund af verðmætasköpun sem ég held að við á þinginu gætum ýtt undir. Það er mikill misskilningur að stofnun þjóðgarðs með þessum hætti feli í sér að þá verði búið að loka fyrir fullt og allt á möguleika á þróun og framkvæmdum á svæðinu. Menn eru fyrst og fremst að fara í ákveðna tegund af nýtingu sem felur í sér ákveðna vöruþróun, tækifæri fyrir sveitarfélög, tækifæri fyrir fólkið í dreifðari byggðum landsins til þess að nýta sér það stjórntæki sem þjóðgarður er. Þetta er mjög góð hugmynd.

Að sama skapi vil ég nefna að það er löngu tímabært að við förum að ræða það í þessum sal og á þessum vettvangi að nauðsynlegt er að stofna eina þjóðgarðastofnun sem fer með yfirstjórn þjóðgarða á landinu. Nú erum við með þrjá þjóðgarða sem allir lúta mismunandi stjórn og það er ótækt.


Efnisorð er vísa í ræðuna