145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

26. mál
[11:35]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um tillögu til þingsályktunar um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað um málið og kynnt sér þær umsagnir sem bárust þegar málið var til umfjöllunar á 144. löggjafarþingi (þskj. 397). Tillagan er nú endurflutt óbreytt.

Efni þingsályktunartillögunnar er að fela innanríkisráðherra í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að 20. nóvember, dagurinn þegar barnasáttmálinn var samþykktur, verði ár hvert helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins.

Allir umsagnaraðilar voru jákvæðir gagnvart efni þingsályktunartillögunnar og bentu m.a. á að mikilvægt væri að fræðsla um réttindi barna væri samofin starfi þeirra í skólum landsins. Nefndin tekur heils hugar undir þessi sjónarmið og vísar til þess að einstaklingar þurfi að þekkja réttindi sín til þess að geta notið þeirra og staðið vörð um þau.

Það er mat nefndarinnar að nauðsynlegt sé að leggja áherslu á kynningu og fræðslu um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og vert sé að nefna að slíkir fræðadagar eru nú þegar viðhafðir, m.a. til fræðslu um íslenska tungu og íslenska náttúru. Það er álit nefndarinnar að mikilvægt sé að auka þekkingu barna á réttindum og skyldum sínum með því að leggja áherslu á kynningu og fræðslu almennt um mannréttindi í samfélaginu og sér í lagi í skólum landsins. Slík fræðsla hlýtur að eiga að vera þáttur í almennu skólastarfi og samtvinnuð því með ýmsum hætti. Tillagan er liður í því að stuðla að mikilvægri kynningu og fræðslu um barnasáttmálann.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.“

Jóhanna María Sigmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, sú sem hér stendur, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Haraldur Einarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Vilhjálmur Árnason.

Virðulegi forseti. Við höfum töluvert talað um réttindi og skyldur barna hér í þinginu. Við sem stöndum að þessu máli fyllum þann hóp sem heitir talsmenn barna á Alþingi og höfum reynt að vinna í hinum ýmsu málum eða koma þeim á framfæri, hvar sem verða má, í störfum okkar á þingi. Þetta er einn hluti þess. Það hefur sýnt sig að íslensk börn hafa takmarkaða þekkingu á réttindum sínum og stundum og ekki síður skyldum sínum og vita í raun ekki, eins og rakið er í málinu, hver munurinn er á forréttindum annars vegar og réttindum hins vegar. Það á auðvitað ekki við um alla frekar en annað en þetta hefur verið raunin mjög víða og oft. Við höfum lagt áherslu á að mikilvægt sé að börn geti átt samtal á jafningjagrunni um leið og þau fái markvissa fræðslu. Það er mikilvægt skref að við búum til vettvang til þess að auka þekkingu nemenda og barna á réttindum sínum og styrkjum þau á allan mögulegan hátt til þess að þau geti komið fram og tjáð sig um leið og þau verða virkir samfélagsþegnar í samræðunni.

25 ára afmæli barnasáttmálans var fagnað 20. nóvember 2014. Það var upphafið að því að þessi hópur þingmanna varð til. Í framhaldinu var lagt að okkur að þetta gæti verið tilvalið mál að flytja hér á þingi. Við þingmenn hljótum að vera ánægð með að við skulum væntanlega standa frammi fyrir því að þetta verði gert. En það er mikilvægt að allir sem starfa með börnum, hvar svo sem þeir eru, ekki bara í skólakerfinu heldur víða annars staðar, í hverri þeirri fræðslu sem mögulegt er að börn og ungmenni sæki, við hinir fullorðnu, séum til þess bær að upplýsa börn um það um hvað mannréttindi snúast og að börn fái tækifæri til að láta í sér heyra. Hér á dögunum var einmitt verið að flytja tillögu sem á að taka svolítið utan um þetta í námskránni, þ.e. setja mannréttindi þar inn. Ég held að það sé vel til fundið. En það er mikilvægt að þetta eigi við alls staðar, ekki bara í skólakerfinu. Við þurfum að vekja athygli á því og vita hvort við getum komið því betur til skila.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið. Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir og ég vona svo sannarlega að tillagan verði samþykkt fljótlega hér á þingi.