145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, frelsi eins getur verið helsi annars, það er nú bara þannig. Í siðuðu samfélagi setjum við okkur auðvitað ótalreglur, bæði siðferðislegar og lagalegar reglur sem við vinnum svo með og viljum vinna með. Ef hugmyndafræði hv. þingmanns væri opin út í eitt varðandi svona mál, að við mundum þá ekki hefta eitt eða neitt og hefðum ekki neinar forvarnir, allt sem byrjar á for-; forræðishyggja, forvarnir og annað því um líkt — við getum auðvitað teygt það í allar áttir. En einhvern veginn kemur samfélag sér saman um ákveðnar reglur, um það sem það vill hafa til þess að samfélagið sé sem best og til þess að þar þrífist gott mannlíf og að menn geri ekki á rétt annarra og allt eftir því.

Spilahallir eru eitt af því sem ég tel ekki vera þörf fyrir. Það kallar ekkert á að þær þurfi að vera til staðar. Við höfum getað lifað ágætislífi á Íslandi án þess að slíkt væri í boði. Mér finnst það vera minnimáttarkennd að tala þannig að fyrst að eitthvað slíkt sé leyft í Tórontó, Helsinki eða hvaða borgum sem er, sé það sjálfsagður hlutur að við þurfum að draga það hingað upp á okkar eyju, að slíkt þurfi að vera í boði hérna.

Það allt í lagi að ekki sé allt í boði hérna sem býðst annars staðar. Það er ekki neitt hættulegt við það. Við getum bara ákveðið það sem samfélag og lifað hér góðu lífi. Ég sé ekki mikla þörf á að lögleiða spilavíti á Íslandi. Það getur vel verið að píratar sjái mikla þörf á því. Þá verða þeir bara að útskýra það.