145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:10]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðu hennar. Það kom svo sem alveg hreint fram í ræðunni að hún væri andsnúin hugmyndinni, en síðan var málflutningurinn mikið til í kringum þann vanda sem sannarlega er og er kallaður spilavandi sem getur fylgt þessari starfsemi. Alvarlegasta mynd spilavanda er spilafíkn. Í andsvörum milli hv. þingmanna Helga Hrafns Gunnarssonar og Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur kom fram að spilað væri víða, reyndar var ekki nefnt að þetta væri til í Stokkhólmi, þ.e. í sænska ríkinu, af því að hv. þingmaður vill halda hér einokunarverslun á áfengi, og af því að hv. þingmaður sagði að við vildum ekki að hér yrði Las Vegas eða Mónakó norðursins með því að lögleiða þetta.

Ég ætla að ítreka, sé ástæðu til þess, að verið er að lögleiða þetta á grundvelli leyfisveitingar. Það er verið að beita þeirri sömu aðferð og hv. þingmaður mælir með í áfengisfrumvarpinu, einokun, til þess að hafa einhvern hemil á og vinna gegn skaðlegum áhrifum og nota bene, spilavandi er hluti af þessu. Það eru ekki allir sem spila sem eiga í þeim skilgreinda vanda, sem okkur reynist mjög erfitt að ná utan um vegna þess að þetta fer allt meira og minna fram utan laga og réttar. Ég vil jafnframt taka fram að það er í engu verið að breyta hegningarlögum gagnvart því hvaða starfsemi verður áfram ólögmæt. Það eru skýr skilaboð með þessu frumvarpi um hvað er lögmætt og hvað ekki. Þess vegna er mun meiri möguleiki á að hafa eftirlit með starfseminni, aðstoða þá sem eiga í vanda og vera með upplýsingar um hver vandinn raunverulega er.