145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:19]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins til að blanda mér í þessa umræðu. Eins og sést á þessu frumvarpi til laga um spilahallir þá er ég meðflutningsmaður á því og ég tel þetta vera gott markmið, að minnsta kosti gott tilefni til að eiga umræðu um hvernig við viljum sjá umgjörðina um það sem við köllum spilahallir eða spilavíti eða aðra spilastarfsemi sem vissulega þrífst á Íslandi. Því miður eins og komið hefur fram í umræðunni þá er erfitt að eiga við hana. Hún þrífst neðan jarðar. Hún er bönnuð og er án alls eftirlits.

Það sem lagt er til í frumvarpinu er hins vegar að það verði strangt eftirlit með spilahöllum. Það er ekki rétt eins og komið hefur fram í umræðunni að hér sé verið að opna allt upp á gátt og búa til Las Vegas norðursins. Þessi starfsemi fer eftir ströngum rekstrarleyfum eftir umsögn og leyfi ráðherra. Þeir sem fá slíkt rekstrarleyfi þurfa að uppfylla allar þær kröfur og reglugerðir sem settar eru því annars er hætta á að missa leyfið. Það verður hægt að setja spilareglur um hvert eitt spil. Við getum takmarkað þau spil sem eru í boði. Við getum haft áhrif á framkvæmd spilanna.

Í 22. gr. er kveðið á um öryggisgæslu og opnunartíma í 23. gr. Við gætum með reglugerð takmarkað hvers lags áfengisnotkun eða ýmislegt annað ef það væri vandamál inni á slíkum stöðum. Við erum langt frá öllu þessu í dag og fjarri því að geta stjórnað spilastarfsemi þannig að hún verði ekki óeðlileg eða að minnsta kosti að draga úr því sem við viljum kalla óeðlilega spilastarfsemi.

Ég ætla að grípa niður í nokkrar fleiri greinar í frumvarpinu og heiti þeirra. Það er bann við spilamennsku starfsmanna og móttöku gjafa frá viðskiptavinum. Ein grein fjallar um að ef viðskiptavinur er grunaður um spilafíkn er skylda að aðstoða hann eða kynna honum ráðgjöf eða meðferðarúrræði. Langir kaflar eru um eftirlit og refsingu þeirra sem stunda þessa starfsemi. Það verður settur á forvarnasjóður og sérstakur spilaskattur. Þarna held ég að sé lykillinn að því að við getum reynt að aðstoða það fólk sem vissulega á við spilavanda að stríða. Það skiptir engu máli hvort þessi starfsemi verður lögleidd á einum stað eða hvort hún þrífst einhvers staðar annars staðar; það verða alltaf einhverjir sem ráða ekki við sig þegar kemur að spilum. Þarna held ég að við séum að búa til tækin til að hjálpa því fólki. Í fyrsta lagi, með því að þessi starfsemi verði opinber og eftirlitsskyld, fáum við upplýsingar sem við getum notað til þess að hjálpa fólki. Í öðru lagi fáum við forvarnasjóð til þess að geta komið fólki í viðeigandi úrræði, fyrir utan að þetta gefur gríðarlegar tekjur ef við miðum við þau lönd sem hafa farið þessa leið.

Ég hef farið stuttlega og hratt yfir þetta frumvarp til laga um spilahallir, en ég er þó með nokkrar hugleiðingar í viðbót. Mig langar til að lesa upp markmiðsgrein frumvarpsins, þ.e. markmiðið með spilahöllum, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að heimila starfsemi spilahalla á Íslandi á grundvelli leyfisveitingar ráðherra. Enn fremur er það markmið laga þessara að starfsemi spilahalla á Íslandi fari fram undir opinberu eftirliti og henni verði sett almenn lagaumgjörð. Þannig skal stuðlað að ábyrgri spilamennsku á Íslandi, allsherjarreglu haldið uppi og hamlað gegn skaðlegum áhrifum á almenning.“

Ég held að þetta sé nákvæmlega það markmið sem við ættum að vinna að með einum eða öðrum hætti varðandi spilafíkn. Ég held að þetta sé mjög gott fyrsta skref.

Mikið er búið að tala um áhrif ferðamennsku á svona starfsemi og ég held að það sé rétt að þetta muni hafa jákvæð áhrif á ferðamennsku. Í skýrslu Boston Consulting Group um ferðamennsku á Íslandi sagði að það vantaði afþreyingu fyrir eldra fólk. Ég held að margt eldra fólk mundi nýta sér svona í sambandi við ráðstefnuhald.

En að því sögðu þá eru spil afþreying. Spil eru afþreying og ekki bara fyrir ferðafólk. Þessi afþreying er gríðarlega stækkandi á Íslandi. Ég ítreka að spilahallir eru ekki bara afþreying fyrir ferðafólk eða afþreying fyrir spilafíkla. Þetta er líka afþreying fyrir venjulegt fólk sem ræður við þetta og finnst gaman að stunda slík spil án þess að setja fjárhag sinn í vandræði. En ég ætla þó ekki að gera lítið úr því að við þurfum, eins og ég er búinn að nefna, að hjálpa því fólki sem lendir í vandræðum og ég held að þetta sé tæki til þess.

Ég er aðeins búinn að fara yfir reglurnar í dag og þær eru þannig að í dag er þetta bannað og varðar við hegningarlög. Við höfum engin tæki til þess að hjálpa fólki sem á við spilafíkn að stríða. Í heiminum í dag eru eitthvað um 20 milljónir manna, ef ég hef haft rétt eftir, sem spila póker á netinu. Ég kem kannski aðeins að netinu á eftir en frumvarpið tekur ekki á því.

Ég velti fyrir mér í morgun að ef ég legði pening undir í póker og spilaði póker við annað fólk þá væri það fjárhættuspil. Ef ég mundi leggja pening undir í skák væri það líklega fjárhættuspil líka. Í dag eru peningar lagðir undir í fótbolta og líklega er það flokkað sem fjárhættuspil en það er leyfilegt. Við leyfum þess lags fjárhættuspil í dag. Fleira sem mundi flokkast undir fjárhættuspil væri bingó og lottó. Þar er hægt að tapa öllum peningunum sínum á því að veðja í lottó.

Virðulegi forseti. Ég hef farið stuttlega yfir efni frumvarpsins og ég held að markmið þess sé mjög gott. Við sjáum það í öðrum löndum að það hefur reynst betur en hitt við að reyna að vinna á þessum vanda að reyna að koma þessari starfsemi upp á yfirborðið.

Ég ætla að nota síðustu mínúturnar af ræðutíma mínum til þess að tala um spil á netinu í dag. Ég hef fengið kynningu á því að það eru þó nokkur nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi, íslenskt hugvit, sem eru að þróa og hanna búnað fyrir veðmálastarfsemi og fyrir póker. Þessi fyrirtæki verða að flytja starfsemi sína út úr landi af því að þetta er bannað hérna. Þetta eru fyrirtæki sem verða gríðarlega öflug. Það eru miklir peningar í þessu. Í staðinn fyrir að þessi fyrirtæki geti verið íslensk áfram og við getum sótt til þeirra upplýsingar og haft hag af starfsemi þeirra þá sendum við þau út úr landi og töpum bæði tekjum af þeim og upplýsingum sem þau geta gefið okkur.

Aðeins meira um netið af því að það var nefnt hér í gær af hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur að hún mundi vilja sjá að íslensk fyrirtæki væru með svona spil á netinu. Þar er ég henni alveg hjartanlega sammála. En hvernig komumst við þangað? Hvernig getum við látið íslensk fyrirtæki hýsa slíka starfsemi, t.d. póker eða veðmálasíður í íþróttum eða hvað það er, án þess að leyfa hana? Ég sé fyrir mér að einokun ríkisins á spilahöllum gæti verið fyrsta skrefið í því að reyna að stýra einhvern veginn þessari umferð og þessu mikla peningamagni sem menn veðja á erlendum síðum, að þetta fari ekki bara út úr landi heldur getum við séð umfangið og reynt að stýra því. En stærsta spurningin í þessu og stærsta vandamálið er líklega netspilunin því við höfum fæst úrræði þar og aðilar hafa flestar undankomuleiðir fram hjá reglunum.

Ég ætla að láta staðar numið hér, hæstv. forseti.