145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:47]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir prýðisræðu og mjög gagnlega umfjöllun um málið. Ég er ekki viss um að ég geti um leið og ég spyr hv. þingmann brugðist við öllum þeim gagnlegu athugasemdum. Það verður viðfangsefni hv. allsherjar- og menntamálanefndar. En hv. þingmaður var ansi snjall að draga fram þau atriði sem eru vissulega oft erfið þegar verið er að setja slík lög.

Ég ætla þó í fyrra andsvari að byrja að koma almennt inn á málið af því að hv. þingmaður sagðist ekki vera hlynntur málinu, ekki á móti fjárhættuspilum eða spilahöllum en talar þó gegn forræðishyggjunni.

Finnst hv. þingmanni ekki æskilegt að slíkt val sé fyrir hendi? Hvort sem við erum að tala um heimamann eða ferðamann, af því að þetta er jú að hluta til miðað við afþreyingu í ferðaþjónustu og er ýmislegt útskýrt í öðrum lagagreinum frumvarpsins. Er þetta ekki fyrst og fremst val?

En það eru auðvitað önnur sjónarmið uppi við samningu þessa frumvarps talandi um tilganginn með því. Það er að það sé skýrt hvað lögin heimila. Það er ekki nægilega skýrt í dag. Við viljum með frumvarpinu, eins og kemur vel fram í 1. gr. um markmiðin, stuðla að ábyrgri spilamennsku og að greinileg og skýr skilaboð séu frá löggjafanum um hvað sé heimilt en ekki eitthvað órætt í hegningarlögum, samanber 183. og 184. gr. sem þó standa áfram. Það er kannski fyrsta spurningin, hvort þetta val eigi bara ekki að vera til staðar, hvort fólki (Forseti hringir.) hugnast að velja að fara inn eða ekki.