145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er almennt þeirrar skoðunar að hlutirnir eigi að vera leyfilegir þar til þeir eru sérstaklega bannaðir. Þegar hlutirnir eru sérstaklega bannaðir þá tel ég að mjög rík rök þurfi að vera fyrir því.

Þá tel ég líka að ríkir almannahagsmunir eigi að vera fyrir hendi. Það er oft ekki tilfellið. Fólk ruglast oft á hagsmunum einstaklingsins sem hefur sjálfur val um sitt eigið líf annars vegar og hins vegar hagsmunum landsmanna sem verða fyrir barðinu á einhverjum afleiðingum af þeim reglum sem eru settar. Ég lít svo á að þarna sé mjög ríkur munur sem oft verði óljós á hinu háa Alþingi og reyndar í íslensku samfélagi almennt.

Til að svara hv. þingmanni finnst mér jú æskilegt að þetta sé leyfilegt. Gagnrýni mín á frumvarpið varðar fyrst og fremst útfærsluatriði og atriði sem varða kannski nálgunina á það, frekar en að ég sé ósammála markmiðinu í sjálfu sér, sem er að heimila spilahallir.

En almennt er ég frelsisins maður og tel til dæmis að fjárhættuspil eigi að vera heimil undir einhverjum reglum, en þó heimil, og það eigi að vera einhverjar mótvægisaðgerðir til að tryggja hagsmuni þeirra sem stunda fjárhættuspil. Sums staðar erlendis hafa verið settar reglur um lágmarksvinningshlutfall, þ.e. að ekki sé hægt að hafa 0% vinningshlutfall eða 0,0001% eða hvað svo sem mönnum dettur í hug, því að mönnum detta svona hlutir í hug og stundum virkar það. Maður þarf oft að spyrja sig hvenær þetta er beinlínis orðið svindl. Það er oft ekkert endilega einföld spurning.

Svarið er jú. Mér finnst að þetta eigi að vera leyfilegt og ég vona að eitthvert svona frumvarp nái fram að ganga og mun auðvitað leggja fram aðstoð mína við meðferð þingsins á málinu til að bæta það, enda veit ég að hv. flutningsmenn eru algjörlega viðræðuhæfir þegar kemur að því.