145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[14:41]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég er búinn að halda framsögu í málinu í umræðu um þetta frumvarp um spilahallir og hef ekki hugsað mér að bæta miklu við það. En umræðan hefur verið mjög góð og margar gagnlegar ábendingar og athugasemdir komið fram, m.a. hjá þeim hv. þm. sem mælti hér síðast, Páli Jóhanni Pálssyni, sem er sömuleiðis meðflutningsmaður á málinu.

Það eru nokkur atriði sem ég vildi bregðast við. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson var með margar gagnlegar ábendingar, margar hverjar sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd mun auðvitað taka fyrir. En ég ætla að reyna í þessari ræðu að draga þetta aðeins saman og þær áherslur sem hafa komið fram í umræðunni og kannski til áréttingar heildarmarkmiðum og tilgangi frumvarpsins.

Hv. þm. Helgi Hrafn benti á 1. málslið 6. gr., þar sem kveðið er á um rekstrarform félagsins. Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins segir um þessa grein, með leyfi forseta:

„Samkvæmt 1. tölulið skal umsækjandi vera hlutafélag eða einkahlutafélag. Félög í þessum félagaformum starfa á grundvelli sérstakra laga. Ástæða þess að þessi tilhögun er lögð til er sú að um slík félög gilda ítarlegar reglur, sbr. t.d. lög nr. 2/1995, um hlutafélög, og lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og þar með er ákveðin formfesta og gagnsæi í skipulagi þeirra, starfsemi og reikningsskilum.“

Nú er auðvitað ekki svo, þó að hér sé verið að heimila á grundvelli þessara laga, að ráðherra geti heimilað starfsemi og rekstur af slíku tagi. Mér finnst það alveg sjónarmið að ekki eigi að vera að íhlutast um það hvers konar rekstrarform er valið. Mér finnst það í raun viðfangsefni nefndarinnar að fara ítarlega yfir það. En rökin með því að þessi tilhögun er lögð til er að finna í athugasemdum með frumvarpinu, þau eru til staðar. Ég vildi koma því á framfæri. Það geta auðvitað margir aðilar komið að slíkri starfsemi fyrsta kastið.

Hér hefur ítrekað verið bent á að dönsku lögin voru höfð til hliðsjónar í þessu máli. Í umræðunni á danska þinginu fyrir 1990, áður en lögin voru samþykkt, má eiginlega segja að SAS hafi leitt þá umræðu vegna þess að það er í þessu máli bein og skýr tenging við ferðaþjónustu. Það er ekkert í frumvarpinu sem segir til um það eða hvort við eigum að hafa skoðun á því hversu margir aðilar kæmu að slíku hlutafélagi sem hefðu áhuga á því og fjárhagslega burði, eins og er ítrekað og lögð áhersla á í þessu frumvarpi, til að fara í slíka starfsemi.

Ég vildi koma að þessu. Annað var 24. gr. Það er lögð áhersla á í frumvarpinu, líkt og í dönsku lögunum upphaflega, að það eru mjög ríkar skyldur gagnvart rekstraraðilanum í umgengni og eftirliti með viðskiptavinum og strangar kröfur þar að lútandi. Nokkrar greinar frumvarpsins snúa að því. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson benti á 24. gr. og öll þau skráningaratriði sem þar koma fram. Ég held að það verði örugglega leitað til Persónuverndar eftir umsögn og þetta er jafnframt verkefni fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Engu að síður er þetta alla jafna reglan og venjan í starfsemi spilahalla og í öðrum lögum sem um þetta gilda.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum árétta það að þegar verið er að tala um algengi spilafíknar og þann vanda þá eru kannski tromprökin í þessari umræðu og málinu þau að færa þessa starfsemi upp á yfirborðið. Auðvitað er hún hér undir yfirborðinu og í fjölmiðlum og blaðagreinum hafa verið nafngreindir staðir og klúbbar sem bjóða upp á spil og þeir sem spila þar spila undir engri réttarvernd og engar tekjur eru gefnar upp, enda færi það í bága við 183. og 184. gr. hegningarlaga, og engar tekjur renna þar af leiðandi til ríkissjóðs. Það er erfitt að hafa nokkurt eftirlit með þessum stöðum eða því sem þar fer fram nákvæmlega. Þetta mál er til þess fallið að draga þess háttar starfsemi upp á yfirborðið þannig að hægt sé að átta sig á umfanginu, hægt sé að hafa eftirlit með starfseminni og stuðla að eins ábyrgri spilamennsku og mögulegt er.

Þegar við tölum um spilavanda og alvarlegasta hluta hans sem er spilafíkn þá er það svo, ef marka má lærðar rannsóknir og greinar á því sviði, að það sama gildir um flestar þjóðir, hvort sem þær leyfa þetta ekki eins og í Noregi eða þar sem þetta er leyft eins og í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi; spilafíknin er mjög svipuð í hlutfalli eða um 2%. Aukið algengi spilafíknar er hins vegar nánast alfarið vegna netspilunar.

Virðulegi forseti. Hér var jafnframt gagnrýnt það atriði að heimila bara einum aðila að fá rekstrarleyfi. Það er enn og aftur danska leiðin en ég get bent á að síðan þá, vegna þess að reynsla Dana af spilahöll hefur verið jákvæð, m.a. með tilliti til ólöglegrar starfsemi, samvinnu við eftirlitsaðila, forvarnasjóðs sem varð til og samskipta við félagasamtök sem takast á við þann alvarlega vanda sem spilafíkn er, þá hafa verið veitt fleiri leyfi og fleiri slíkir staðir og spilahallir hafa opnað, m.a. í Vejle, í Árósum, í Óðinsvéum, í Álaborg, á Helsingjaeyri og að ég held annar staður í Kaupmannahöfn.

En ég læt þessu lokið hér, virðulegi forseti.