145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

fæðingar- og foreldraorlof.

261. mál
[14:49]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, sem flutt er af þingmönnum Samfylkingarinnar.

Við á Íslandi njótum þess að hér hefur verið hæst fæðingartíðni í Evrópu, sem þýðir að fram til skamms tíma fjölguðum við okkur með náttúrulegum hætti því að íslenskar konur hafa verið svo duglegar við að eignast börn. Þegar litið var til evrópskrar tölfræði var eitt land ofar okkur hvað varðar fæðingartíðni, þ.e. Tyrkland, sem er að hluta til í Evrópu.

Norðurlöndin hafa almennt staðið sig vel hvað fæðingartíðni varðar og búa því svo vel að hafa heppilegri aldurspíramída en margar þjóðir, til dæmis í Suður-Evrópu og Þýskalandi og fleiri, sem leiðir til þess að við getum sannarlega fagnað hækkandi aldri og betri heilsu því að fleiri koma inn á íslenskan vinnumarkað vegna fólksfjölgunar með náttúrulegum hætti. Svo erum við líka svo heppin að hingað vill koma fólk og vinna þegar tækifæri gefst, en það er önnur saga.

Hina háu fæðingartíðni á Norðurlöndunum og Íslandi má rekja til þess að við erum með velferðarkerfi sem er þannig uppbyggt að konur þurfa ekki að velja á milli þess að fara út á vinnumarkað og eignast börn. Við getum gert hvort tveggja. Það er ekki raunin fyrir konur í mörgum suðlægari ríkjum eins og á Ítalíu, Spáni, Portúgal og Þýskalandi þar sem fæðingartíðni er alvarlega lág.

En þróunin nú á allra síðustu árum hefur verið sú að dregið hefur úr fæðingartíðni enda höfum við ekki búið ungum fjölskyldum þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að fólk sé tilbúið til þess að eignast börn. Það þarf margt að koma til. Við þurfum að breyta barnabótakerfinu þannig að við greiðum barnabætur með hverju barni. Við þurfum að lengja leikskólatímann þannig að börnin komist fyrr inn á leikskóla en núna. Svo búum við líka við það að þrátt fyrir hina háu fæðingartíðni er atvinnuþátttaka hvergi meiri en hér, bæði hjá konum og körlum, miðað við mörg Evrópuríki og vinnutími okkar er ákaflega langur.

Á öllu þessu þurfum við að gera breytingar til þess að búa til manneskjulegra samfélag hér og búa til samfélag sem er eftirsóknarvert fyrir barnafjölskyldur. Þetta frumvarp er einn liður í því að bæta það ástand.

Í hruninu þurfti að skera niður framlög til Fæðingarorlofssjóðs sem var ekki auðvelt. En það var mun ríkulegra kerfi en mörg af hinum tilfærslukerfunum okkar og var það gert til þess að hægt væri að hækka með eðlilegum hætti atvinnuleysistryggingar og lágmarksbætur almannatrygginga. En ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur byrjaði aftur að hækka fæðingarorlofið. Þakið var komið niður í 300 þús. kr. og fór upp í 350 þús. kr. með fjárlögum 1. janúar 2013. Við ákváðum líka að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Átti sú lenging að hefjast frá og með 1. janúar 2014 og taka að fullu gildi 1. janúar 2016.

En hvað gerðist? Það kom ný ríkisstjórn og hún var með aðra forgangsröðun fjármuna. Hætt var við lengingu fæðingarorlofsins. Ekki voru til fjármunir í það enda þurfti að lækka veiðigjöld á útgerðina og hætta við álagningu auðlegðarskatts á þá allra ríkustu í íslensku samfélagi. Barnafjölskyldur drógu stutta stráið í þeirri útdeilingu eins og svo margt annað sem lýtur að velferðarmálum.

Þakið var hækkað um 20 þús. kr. í 370 þús. kr. og nú er þriðja almanaksárið af óbreyttu fæðingarorlofi gengið í garð, sem þýðir kjararýrnun fyrir smábarnafjölskyldur. Það hefur leitt til þess að æ færri feður taka nú fæðingarorlof. Um 91% feðra tók fæðingarorlof árið 2008 en það var komið niður í rúm 78% árið 2014 og ógnar þar með markmiðum fæðingarorlofs um að börn fái notið samvista við báða foreldra og jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Þá hafa mæður af eðlilegum ástæðum átt erfiðara með en feður að stytta eða hætta við fæðingarorlof, þó að æ fleiri konur lækki nú umtalsvert í tekjum við það að fara í fæðingarorlof. Kemur það mjög niður á fjárhag fjölskyldna. Það er eðli málsins samkvæmt yfirleitt tiltölulega ungt fólk sem er að kaupa sér húsnæði, sem er jafnvel að byrja að greiða af námslánum samhliða því sem það eignast börn og þarf þá að taka á sig kjaraskerðingu.

Hefði fæðingarorlofið fylgt verðlagi frá því sem var fyrir hrun væri þakið í fæðingarorlofinu nú 820 þús. kr. En það er 370.000 kr. Þarna munar ansi miklu. Við leggjum hins vegar til að þakið fari í 500 þús. kr., eða það hefði átt að gera það 1. janúar 2016. Við lögðum frumvarpið fram fyrir jól en það hefur ekki komist á dagskrá fyrr en nú. Við leggjum til mjög hóflega en nauðsynlega hækkun til þess að koma til móts við fjárhag smábarnafjölskyldna.

Við leggjum til að fæðingarorlofið verði lengt upp í 12 mánuði í tveimur þrepum og að það taki að fullu gildi 1. janúar 2018 þannig að sjálfstæður réttur foreldra verði fimm mánuðir hvors um sig og sameiginlegur réttur tveir sem hægt sé að skipta á milli og samtals séu þetta 12 mánuðir sem ungabörn fái þá að eiga með foreldrum sínum eftir fæðingu.

Ekki eru lagðar til breytingar á öðrum greiðslum, eins og til dæmis lágmarksgreiðslum eða fæðingarstyrkjum sem nýtast þeim sem eru í lágu starfshlutfalli, námi eða utan vinnumarkaðar. Venjan er að þær greiðslur séu hækkaðar með reglugerð í kjölfar fjárlaga. En við bendum á að forsendur þeirra fjárhæða verði endurskoðaðar í framhaldinu í samhengi við lágmarksframfærsluviðmið námslána, lífeyrisgreiðslur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur.

Það er líka mikilvægt skref til þess að fara í það verkefni með sveitarfélögunum að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Mörg sveitarfélög leitast nú við að taka börn fyrr inn á leikskóla, en ekki er óalgengt að börn séu orðin nánast tveggja ára gömul þegar þau komast í leikskóla og þurfa að vera í mjög dýrum og óöruggari úrræðum fram að því.

Mikil sátt var um breytingar á fæðingarorlofinu sem gerðar voru hér um síðustu aldamót og markmiðið með þessu frumvarpi er að tryggja að fæðingarorlofskerfið þjóni markmiðum sínum. Að öðrum kosti er hætt við að fæðingarorlofskerfið veikist enn frekar og að kostnaðurinn við að endurreisa það verði illviðráðanlegur.

Þegar félags- og húsnæðismálaráðherra hætti við lengingu á fæðingarorlofinu og lagði til smánarlega hækkun sem ekki hefur neitt verið aukið við í þrjú ár stofnaði hún samhliða því nefnd sem endurskoða átti lög um fæðingarorlof. Við fengum nýlega, bara nú í vikunni, upplýsingar um það í velferðarnefnd að ekki væri vitað hvenær sú nefnd skilaði af sér.

Það er því mikilvægt að þetta frumvarp komist til velferðarnefndar og fái umfjöllun þar og verði að lögum því að æ fleiri vísbendingar og tölulegar staðreyndir eru um að það eru ungar fjölskyldur, ungt fólk í þessu landi, sem búa við erfiðustu kjörin og erfiðari skilyrði en fyrri kynslóðir.