145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Flestir hafa látið í ljós óánægju með þessar fyrirhuguðu arðgreiðslur en maður hefur líka heyrt gagnrýni á þá sem gagnrýna vátryggingafélögin. Mér finnst alltaf svolítið skondið það viðhorf að við eigum að fagna því eitthvað óskaplega þegar vel gengur og þegar fjárfestar ávaxta sitt fé vegna þess að hugmyndin með frjálsum markaði og samkeppni er að tryggja lægra verð og betri þjónustu til neytenda. Mér finnst það gleymast, kannski vegna þess að fyrirtæki á Íslandi taka neytendum sem sjálfsögðum hlut, kannski vegna þess að við höfum verið of værukær, að menn eru ekki á tánum að keppa um hylli okkar. Ég get rifjað upp að upp úr aldamótum þegar það lá fyrir að verðsamráð væri í gangi hjá olíufélögunum áður en Samkeppniseftirlitið fór í málið kvörtuðum við og kveinuðum en keyrðum svo beint á næstu bensínstöð og fylltum bílinn. Það var bara þannig.

Nú finnst mér eins og við séum að verða betri neytendur, mér finnst ég sjá merki þess. Mér finnst neytendur eiga að vera ófyrirsjáanlegir, að þeir þurfi ekki að rökstyðja ákvarðanir sínar fyrir einum eða neinum. Þeir eiga að gera það sem þeim sýnist og ef þeim blöskrar framganga tryggingafélaganna skipta þeir einfaldlega um fyrirtæki. Ég hef líka lesið að það sé eiginlega enginn annar á markaði. Jú, það er eitt fyrirtæki á markaði sem hægt er að eiga viðskipti við vilji fólk það.

Mér finnst líka þögn félaganna sem um ræðir hafa verið svolítið æpandi. Ég átta mig ekki á hvað er eðlilegur arður í svona starfsemi og þá er það þeirra að útskýra fyrir okkur ef þetta er eðlilegur arður. Félögin setja peningana í einhverjar „fansí“ auglýsingaherferðir til að reyna að tryggja viðskiptin en þau mættu útskýra þetta betur ef þetta er raunverulega fullkomlega eðlilegt. Miðað við nýjustu fréttir um að verið sé að lækka arðinn eru þau greinilega komin að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki.