145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, fyrir þessa umræðu um áformaðar arðgreiðslur tryggingafélaganna. Reyndar vil ég segja í upphafi ræðu minnar, á þessum stutta tíma, að ég er sammála hæstv. ráðherra fjármála og efnahagsmála, Bjarna Benediktssyni, sem segir að þetta sé áminning um að við þurfum að standa saman í því að endurvinna traust. Mér finnst þetta fyrst og síðast snúast um það vegna þess að það er fullur skilningur á því að þeir sem setja fé í áhætturekstur hafi arð af sínu fé. Það er ekkert deilt um það, það er fullur skilningur á því.

Fákeppni er vandamál og birtist okkur í því að teknar eru vondar ákvarðanir. Þess vegna sakna ég þess í þessari umræðu að tryggingafélögin hafi ekki í kjölfar þess að slíkar ákvarðanir eru teknar á stjórnarfundi, til að leggja fyrir aðalfund, upplýst á hvaða grundvelli þær eru teknar og það útskýrt. Sérstaklega þegar viðbrögðin eru svona hörð úti í samfélaginu, góðu heilli, ættu þau að bregðast við og upplýsa og útskýra en þau ætla að reyna að þegja þetta af sér. Ég held einmitt að sá jákvæði póll sem við getum tekið í þessari umræðu sé að það er liðin tíð að hægt sé að þegja af sér umdeildar ákvarðanir. Þjóðin er upplýstari, hún er reynslunni ríkari um slíkar aðstæður og bregst við. Þess vegna er hollt að taka þessa umræðu hér.

Ég vil svo í lokin segja að það er auðvitað mótsagnakennt að á sama tíma og við erum að innleiða nýjar reglur sé tekin ákvörðun um að greiða arð umfram hagnað. (Forseti hringir.) Það hljómar einfaldlega ekki rétt.