145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og ráðherra fyrir svör og þátttöku í umræðunni. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það er mikilvægt að allir skynji ábyrgð sína í því og leggi sitt af mörkum til að reyna að byggja aftur upp traust í þessu samfélagi. Það var nefnilega fleira en fjárhagsleg verðmæti sem hrundi með hruninu, það hrundi eiginlega allt traust í samfélaginu og það tekur tíma að byggja það upp. Okkur miðar reyndar ekkert sérstaklega vel að öllu leyti þessi missirin, samanber framferði bankanna við sölur og nú tryggingafélaganna. Þetta er ekki gott innlegg. Það eina ánægjulega er að þjóðin er enn með meðvitund. Hún lætur í sér heyra og það er gott.

Hæstv. fjármálaráðherra segist ekki vera hrifinn af því að setja með einhverjum hætti takmarkanir á það hvað tryggingafélögin geta í framtíðinni leyft sér í þessum efnum. Ég er ekki að tala fyrir því að settar verði almennar frambúðartakmarkanir á til dæmis eðlilegar arðgreiðslur. Ef við innleiðingu Solvency II tilskipunarinnar reynist hins vegar vera umtalsvert umframgjaldþol í félögunum finnst mér allt annað mál að skoða að því svigrúmi sérstaklega skuli skipt með einhverjum hætti milli viðskiptavina félaganna og hluthafanna. Það að ekkert af tryggingafélögunum skuli, þrátt fyrir góða afkomu, hafa látið sér detta í hug að deila ávinningi sínum að einhverju leyti með viðskiptavinum sínum segir okkur alvarlega sögu um tvennt, annars vegar viðhorf stjórnendanna og mat þeirra á markaðnum og hins vegar það að samkeppnin er þá ekki virk. Auðvitað væri það snilldarbragð hjá tryggingafélögunum að bæta ímynd sína með því að láta viðskiptavini sína njóta góðs gengis, t.d. með því þótt ekki væri nema hækka ekki iðgjöldin á sama tíma og þau ætla að borga sér svona mikinn arð. Látum vera þótt þau færu ekki alla leið eins og danska félagið Tryg sem endurgreiðir 8% af iðgjöldum síðastliðins árs vegna góðrar afkomu.

Svo tek ég undir og hafði hugsað mér að nefna það sjálfur að auðvitað vantar okkur hérna félagslega rekið tryggingafélag, gagnkvæmt tryggingafélag, til að veita einkaaðilunum aðhald. (Forseti hringir.) Það yrði ágætissamkeppnisforskot ef hinir ætla að greiða sér svona mikinn arð á komandi árum, þá mætti hafa bærilega afkomu í félagi sem léti félagið og viðskiptavini sína njóta sambærilegra fjárhæða.