145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

fæðingar- og foreldraorlof.

261. mál
[15:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að tjá mig um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem mælt var fyrir hér áðan og er kannski til bóta í þeim málum sem við höfum verið að fjalla um og varða stöðu fjölskyldna í landinu. Ég tek undir það að það er nauðsynlegt að hækka fjárhæðirnar þegar kemur að hámarkinu á fæðingarorlofinu, hvort það er þessi tala eða einhver önnur skal ósagt látið en við þurfum svo sannarlega að gera betur við barnafjölskyldur. Ég tek undir það, sem hv. frummælandi sagði hér áðan, að við þurfum líka að skoða þetta í öllu heildarsamhenginu, meðal annars með því að lagfæra aftur tekjuviðmiðin varðandi barnabætur og annað það er snýr að barnafjölskyldum. Þess er skemmst að minnast, þegar við ræddum UNICEF-skýrsluna um 9 þúsund börn sem líða efnislegan skort, að það er hluti af því að sumar fjölskyldur sjá sér ekki fært, feður sérstaklega, að taka fæðingarorlof þar sem tekjuskerðingin verður of mikil.

Ákvörðun um rétt til að nýta fæðingarorlof er bæði tekjutengd og hún er kynbundin og það er mjög mikilvægt að við reynum að lagfæra fæðingarorlofskerfið til samræmis við það sem því var ætlað, þ.e. til þess að jafna töku foreldra á fæðingarorlofi. Eins og fram kom áðan þurfti að skera Fæðingarorlofssjóð niður eftir hrun eins og svo margt annað. Því urðu það afar mikil vonbrigði þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ákvað í fjárlögum ársins 2014 að helminga tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs sem að hluta til er fjármagnaður með tryggingagjaldinu sem fyrirtækin í landinu greiða. Ég held að prósentan sé 0,6 en hún var 1,2 hér áður. Þegar þetta er skert svona mikið, þ.e. tekjur Fæðingarorlofssjóðs, getur það ekki rímað við tilgang hans, þ.e. jafnréttishugsjónina, því að ég tel líka fyrirsjáanlegt að konur verði lengur utan vinnumarkaðar; það er eitt af því sem viðheldur launaójöfnuði, að minnsta kosti mun hann ekki ná jafnvægi að mínu mati. Launaþakið er 370 þús. kr., sem er töluvert undir meðallaunum á almennum launamarkaði. Á árinu 2013 var það tæp 560 þús. kr. og því er þetta kannski fyrst og fremst orðin ákvörðun sem er tekin út frá fjárhagslegri stöðu fólks, hvort það geti nýtt sér fæðingarorlofið eða ekki.

Þegar fyrirkomulagið var með nokkuð góðum tekjumörkum, þ.e. þegar lagt var af stað, þá var það ekki tekjutengd ákvörðun foreldra að nýta sér viðbótarréttinn, þ.e. þennan þriggja mánaða viðbótarrétt sem foreldrar geta skipt á milli sín, og þess vegna er ákvörðunin orðin kynbundin þar sem karlar eru að öllu jöfnu með hærri laun en konur.

Við þurfum að endurreisa þetta kerfi og við þurfum að vanda vel til verka. Hér var það líka rakið að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur ákveðið að skerða tekjur ríkissjóðs umtalsvert í gegnum svo marga þætti sem áður hafa verið taldir. Hvort sem um er að ræða skatt á sjávarútveginn eða á þá sem ríkir eru eða skuldaniðurfellingu á lánum fólks eða hvað það nú er, þá er verið að veikja grunntekjustofna ríkisins. Það er ámælisvert þegar við stöndum frammi fyrir því að Fæðingarorlofssjóður er ekki fjármagnaður. Hann getur ekki staðið undir því sem hann þyrfti að gera og hefur ekki verið færður aftur til fyrra horfs eins og honum var ætlað að vera.

Við vitum að þær upphæðir sem eru í kerfinu í dag eru ekki nógu háar. Fólk talar um það. Það hefur komið fram mjög víða. Ég ætla svo sem ekki að tala mjög lengi í þessu máli, en það má líka velta því fyrir sér hvenær einhverrar niðurstöðu má vænta úr þeim starfshópi sem hefur verið að rannsaka framtíðarskipan fæðingarorlofskerfisins. Það er orðið svolítið langt síðan skila átti skýrslu. Eftir því sem formaður hópsins sagði þá var það alveg á næstunni, þá var það einhvern tímann í fyrravetur sem það var. Það kom fram hjá honum að hann teldi mikilvægara að hækka greiðsluþak en að lengja orlofstímann. Hann taldi málið brýnt. Ég er honum sammála þar, þar sem hann gerði líka ráð fyrir því að tillögur til breytinga yrðu væntanlega lagðar fram á þessu þingi.

Hv. varaþingmaður Rósa Björk Brynjólfsdóttir fékk svör um fæðingarorlofsstarfshóp frá ráðherra sem olli töluverðum vonbrigðum. Ekki er settur tímafrestur á þann starfshóp að skila. Það er eitt af því sem ætti að vera grundvallarregla, þegar við erum að skipa starfshópa, að þeir starfi innan ákveðins tímaramma, sérstaklega þegar verið er að fjalla um tiltekin afmörkuð mál. Maður má velta því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum það var ekki gert í þessu tilfelli, hvort þessi hópur geti bara tekið sér þann tíma sem hann lystir. Starfshópurinn fundaði 18 sinnum á þeim tíma þegar fyrirspurninni var svarað og hafði ekki lagt fram áfanganiðurstöður eða nokkurn skapaðan hlut. Það hafði ekkert komið fram formlega frá honum.

Það er eitt af því sem skiptir máli til framtíðar litið, og einhver niðurstaða virðist vera komin í þá hugsun, að það að hækka greiðsluþakið sé forgangsmál að mati formannsins frekar en að lengja orlofstímann. Við þurfum að gera hvort tveggja, ég held að það sé alveg ljóst. Hvort við gerum það í áföngum, sem ég geri ráð fyrir, skiptir líka máli í mínum huga.

Það hefur komið fram að ungar mæður, sem rætt var við á þessum tíma, þegar verið var að inna eftir þessu og þegar þessi fyrirspurn kom fram, töldu nær ógerlegt að lifa af tekjum frá Fæðingarorlofssjóði. Vegna tekjuskerðingarinnar sem verður út af þessum mismuni þurfti önnur þeirra sem talað var við að búa í foreldrahúsum. Svo er það sem ég ræddi hér áðan, þ.e. að báðir foreldrarnir geta ekki tekið orlof. Út frá því að þetta er algengara en hitt þá verðum við að gangast við því að víða er pottur brotinn.

Frummælandi sagði að fæðingum hefði fækkað töluvert undanfarin ár og í raun hefðu þær aldrei verið færri. Það er líka þannig að með hækkandi lífaldri okkar þá eru konur orðnar eldri að meðaltali þegar þær eignast börn, en það virðist fylgjast að þetta með að feður taki heldur ekki fæðingarorlof. Ég veit ekki hvort það er eingöngu fæðingarorlofskerfið okkar sem þar á hlut að máli eða hvað veldur, en það skiptir klárlega máli. Mér finnst það skipta máli, ekki bara fyrir ungt fólk heldur fyrir alla foreldra.

Fyrir fólk sem nýtir ekki kerfið vegna þess að upphæðirnar eru ekki nógu háar, þá verðum við líka að velta því fyrir okkur hversu háar þær mega vera. Segjum að þú fáir 80% af launum þínum að einhverju tilteknu hámarksþrepi. Ef þú ert með eina milljón eða rúmlega það á mánuði skerðist fæðingarorlofið. Þó að ég vilji jafnan rétt allra til tökunnar þá mundi ég samt gjarnan vilja sjá að tekjulágt fólk og fólk með millitekjur hefði tækifæri til þess. Ég tel að þeir sem hafa rífleg laun, milljón eða meira, séu frekar í færum til að taka fæðingarorlof en þeir sem hafa lægri tekjur, og sérstaklega unga fólkið sem er að koma sér þaki yfir höfuðið, er jafnvel í skóla og allur gangur á því hver staðan er.

Í þessu samhengi vil ég minna á tillögu okkar vinstri grænna sem hefur gengið út á samfellu frá fæðingarorlofinu yfir í leikskólann. Það er vissulega framtíðarsýn, en það er ekki draumsýn. Ég held að það sé líka eitthvað sem kemur þeim sem minna hafa á milli handanna til góða. Eins og við þekkjum öll þá er dagmæðrakerfið dýrt, það er ekki endilega einfalt að komast að. Það er margt þar undir sem við þurfum að huga að.

Fyrst og fremst finnst mér þetta tvennt ámælisvert hjá núverandi ríkisstjórn, þ.e. að tryggingagjaldið hefur ekki skilað af sér því sem það átti að skila í kerfið. Það hefur orðið til þess að Fæðingarorlofssjóður hefur skerst þetta mikið og hann hefur verið rekinn með halla. Það er alveg ljóst að ekki verður hægt að hækka orlofsgreiðslur ef fram heldur sem horfir. Ég hef síðan gagnrýnt það að starfshópurinn skuli ekki skila af sér. Kannski þurfum við að kalla enn frekar eftir því og fylgja því eftir að hann skili af sér, enda er málið aðkallandi og erfiðleikar mjög víða sem verða til þess að verið er að skerða tækifæri barna til að njóta samvista við báða foreldra sína. Það er grundvöllurinn að hugmyndafræði fæðingarorlofskerfisins eins og það var lagt upp þegar lengingin átti sér stað, þegar mánuðirnir þrír sem átti að deila á milli foreldra urðu að veruleika, þegar feður áttu að taka þrjá annars féllu þeir niður. Það var grunnurinn að því að styrkja rétt barnsins til að njóta samvista við foreldra sína.

Mér þykir frumvarpið vera hluti af því sem gæti stutt við það að svo gæti orðið. Því miður geri ég ekki ráð fyrir því að málið nái fram að ganga. Ég hef miklar áhyggjur af því að þessi mál séu ekki í forgangi hjá ríkisstjórninni, sem kemur meðal annars fram í því sem ég lýsti hér áður. En það breytir því ekki að við þurfum að tala fyrir því og við þurfum að hamra á því og við þurfum að veita ríkisstjórninni aðhald í þessu máli.