145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

fæðingar- og foreldraorlof.

261. mál
[16:10]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vildi koma hér upp í lokin og þakka fyrir þær umræður sem hér hafa átt sér stað um þetta mikilvæga mál. Ég vil þakka þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Bjartrar framtíðar fyrir eindreginn stuðning við málið. En ég verð að segja það, frú forseti, að ég sakna þingmanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins úr þessari umræðu, þingmannanna sem víluðu ekki fyrir sér að hætta við lengingu fæðingarorlofsins, sem hafa ekki vílað það fyrir sér að hækka ekki greiðslur í fæðingarorlofi þrátt fyrir skattalækkanir og fleira slíkt. Afnám sykurskatts var mikilvægara en hækkun fæðingarorlofs. Lækkun á veiðigjöldum var mikilvægari en hækkun fæðingarorlofs. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir barnafjölskyldur og viðbrögðin við frumvarpinu hafa sýnt það.

Ég vil þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir að lesa upp úr bréfinu frá mæðrunum í Grindavík. Mæðurnar í Grindavík eru í sömu stöðu og fjölmargar nýbakaðar mæður hér á landi sem gleðjast yfir því ásamt fjölskyldum sínum að hafa eignast lítil börn, en eru með kvíðahnút í maganum yfir því hvað taki við að fæðingarorlofi loknu. Þær takast líka á við það að horfast beiskjublandið á að eiginmenn þeirra eða feður barnanna — auðvitað er það ekki alltaf þannig að fólk sé af sitt hvoru kyninu sem er að eiga saman börn, en ef við tölum um jafnréttisvinkilinn milli karla og kvenna, þá horfa konur fram á það að mennirnir þeirra geta ekki tekið fæðingarorlof af því að fjárhagur heimilisins ræður ekki við það. Þeir geta tekið tvær, þrjár fyrstu vikurnar í lífi barnsins, en svo kemur fjölskyldan sér saman um það, út af hinum alræmda kynbundna launamun, að karlmaðurinn taki ekki fæðingarorlof af því að fjárhagur heimilisins ræður ekki við það. Það er það sem konur standa frammi fyrir. Það er beisk tilfinning því þetta breytir bæði valdahlutföllum og verkskiptingu í fjölskyldunni. Þetta er efnahagslegt álag sem er erfitt þegar fjölskyldur eru líka að laga sig að nýjum aðstæðum með nýju barni. Og þetta heldur konum utan vinnumarkaðar mun lengur en þær kæra sig um sjálfar. Þannig að þetta er ákaflega brýnt mál.

Við settum þetta kerfi á laggirnar. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ættu að vera stoltir af því að þessi löggjöf var sett í valdatíð þeirra þó að breið sátt hafi verið um hana. Þeir ættu að standa betur vörð um þessi mikilvægu lög. En núna ár frá ári er verið að grafa undan kerfinu og við óttumst að það verði slíkt áhlaupaverk að endurreisa það að það verði dýrara og erfiðara með ári hverju. Við verðum að hefjast handa. Og við eigum að hefjast handa. Við eigum að senda þau skilaboð að við viljum að ungt fólk búi á Íslandi, sjái framtíð sína á Íslandi og vilji eignast börn. Það er dýrmætt að búa í samfélagi þar sem börn eru velkomin og fólk eignast börn þannig að við náum að fjölga okkur með náttúrulegum hætti.

Mig langar að lokum að lýsa yfir áhyggjum af þeirri nefnd sem hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttir skipaði. Fyrir henni fer vanur maður, Birkir Jón Jónsson, sem var hér þingmaður. Það hlýtur eitthvað meira en lítið að vera að. Ég veit að það er ekki verkstjórn Birkis Jóns, en það virðist vera lítill pólitískur áhugi fyrir auknum fjárveitingum í málaflokkinn því að það er ekkert vitað hvenær þessi nefnd skilar niðurstöðum. Það kom fram á fundi í velferðarnefnd í þessari viku.

Það eru ýmsar lagfæringar sem þarf að gera. Ýmislegt í fæðingarorlofslöggjöfinni hefur verið gagnrýnt eins og t.d. þegar börn fá ekki að njóta samvista nema við annað foreldri sitt þar sem hitt foreldrið vill ekki taka fæðingarorlof, vill ekki sem sagt gangast við eða vera með barninu sínu, eða þar sem aðstæður eru þannig að það getur það ekki. Eða þegar börn eiga bara eitt foreldri en foreldrið fær bara sex mánuði en ekki níu, en vonandi tólf mánuði þegar við lögleiðum þetta, ef við berum gæfu til. Þegar svona ber undir erum við að mismuna börnum. Þetta er eitthvað sem við verðum að horfast í augu við og við verðum að taka á. Við reynum að hafa skorðurnar það þröngar að ekki sé verið að hvetja til þess að annað foreldrið sleppi fæðingarorlofi, því að það er auðvitað eitt af markmiðum laganna að báðir foreldrar taki þátt í uppeldi barnanna. Það eru ýmsar slíkar lagfæringar sem þarf að gera.

En stóra málið er afskaplega einfalt. Það er að tryggja fjármuni til að hækka greiðsluþakið og lengja fæðingarorlofið. Það eru engin stjarnvísindi. Það er bara að segja: Já, við erum tilbúin til að forgangsraða fé til foreldra ungbarna. Og ættum við ekki öll að geta verið sammála um það?

Því miður, hæstv. forseti, virðist viljinn lítill hjá núverandi stjórnvöldum. Ég vona að áhugaleysi þeirra í umræðunni í dag endurspegli ekki áhugaleysi þeirra á fæðingarorlofinu og þau leggist á sveif með okkur hinum og geri þetta frumvarp að lögum. Að öðrum kosti verður lofa ég því að við munum gera þetta að lögum strax að loknum kosningum. Þegar flokkar sem kenna sig við velferð og jöfnuð og líta til hags samfélagsins alls verða komnir til valda, þá munum við tryggja lengingu og hækkun fæðingarorlofs. En ég vona svo sannarlega að til þess komi áður því að þetta er brýnt hagsmunamál fyrir velferð barna og ungbarnafjölskyldna á Íslandi.