145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

mótun stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum.

247. mál
[16:18]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegur forseti. Það er mér mikil ánægja að fá að mæla fyrir þessu máli. Það snýr að því að stjórnvöld, þ.e. umhverfis- og auðlindaráðherra, móti stefnu sem hafi það markmið að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum og að upplýsa neytendur um tilvist skaðlegra efna og áhrif þessara efna á heilsu og umhverfi. Það eru gríðarmörg efni og efnasambönd í næstum því öllum vörum sem við notum í dag og mörg þeirra efna eru skaðleg. Flest efnanna hafa ekki verið rannsökuð og áhættumetin með tilliti til skaðlegra áhrifa á heilsu fólks eða á umhverfið.

Fram til ársins 1981 komu hin og þessi efni á markað. Þegar ég tala um efni getur það verið plast af öllum gerðum, varnarefni, skordýraeitur, rotvarnarefni, ilmefni, stundum er talað um kemísk efni í því sambandi. Þetta geta líka verið þungmálmar. Þetta eru alls konar efni sem eru sett í vörur til þess að bæta þær á einhvern hátt út frá sjónarhóli framleiðanda, ekki endilega neytenda. Ef ég tek peysuna sem ég er í hafa væntanlega verið notuð varnarefni á bómullarakrana, litarefni í verksmiðjunni og í sumum fötum eru efni til þess að textíllinn eða efnið krumpist ekki. Þessi efni eru ekki saklaus, þau geta haft margvísleg vandamál í för með sér. Þau geta til dæmis haft áhrif á ónæmiskerfið, hormónakerfið, sum eru beinlínis krabbameinsvaldandi og þar fram eftir götunum.

Það sem gerðist og ástæðan fyrir því að við erum komin í ógöngur er að fram til ársins 1981 voru efni sett á markað án þess að þau hefðu verið rannsökuð. Þau voru bara framleidd og voru svo komin í alls konar vörur sem við notum án þess að við vitum hvaða áhrif þau hafa á okkur.

Árið 1981 voru sett lög í Evrópu sem skylduðu framleiðendur til þess að áhættumeta öll ný efni sem komu á markað eftir 1981. Eftir að lögin tóku gildi er talið að um 3 þús. efni hafi komið á markað en það eru um 100 þús. efni á markaði sem ekki hafa verið áhættumetin. Eins og ég sagði geta efnin verið af margvíslegum toga, sum þeirra safnast upp í vefjum manna og dýra. Svo eru það þau sem hafa áhrif á hormónakerfið, sem hafa áhrif á æxlunargetu. Menn hafa áhyggjur af því að aukin ófrjósemi sé að einhverju leyti þeim efnum að kenna. Við notum vörur á hverjum degi sem innihalda slík efni. Það geta verið snyrtivörur og hreinsiefni, matarílát, leikföng og raftæki. Mörg efni eru í raftækjum, fatnaði og því um líku.

Evrópusambandið reyndi að ná utan um málið. Það voru mjög mikilvæg lög sett árið 2007 sem kölluðust REACH (Regulation on Registration, Evaluation, Authorisation and Restriction of Chemicals). Tilgangurinn með lögunum er meðal annars að þau 100 þús. efni sem eru á markaði verði skráð í gagnagrunn. Auk þess þarf að áhættumeta efni sem eru framleidd eða flutt inn á Evrópska efnahagssvæðið nema til séu nægileg gögn til að meta áhættuna. Kostnaður af því á að falla á framleiðanda og innflytjanda. Útbúinn hefur verið listi yfir þau efni sem eru í notkun en þykja sérstaklega hættuleg, „kandídatslisti“ er hann kallaður eða Substances of Very High Concern, svo ég leyfi mér að tala ensku, frú forseti. Þessi efni eru metin sérstaklega og í framhaldinu eru þau annaðhvort bönnuð eða framleiðendum gert skylt að sækja um sérstakt leyfi fyrir notkun þeirra. Á miðju ári 2015 voru 163 efni á listanum.

Neytendur eiga rétt á því að vita hvort vara sem þeir hafa áhuga á að kaupa inniheldur efni á þessum lista, með einhverjum takmörkunum þó, en það er þannig að neytandinn þarf sjálfur að kalla eftir þessum upplýsingum og seljandinn hefur 45 daga til að svara. Í rauninni er neytendum lítill greiði gerður með þessum „rétti“ því að þetta er meira sýndarmennska en eitthvað annað. Fyrir það fyrsta þarf neytandi að vita að þessi listi yfir skaðleg efni er til. Hann þarf að vita að skaðleg efni eru notuð í neysluvörur, það er ekki eitthvað sem allir gera sér grein fyrir, og hann þarf að hafa fyrir því að kalla eftir upplýsingunum og vera þolinmóður í 45 daga meðan hann bíður eftir svari og ekki kaupa vöruna á meðan.

Í sumum löndum hefur verið brugðist við þessu með því að útbúa forrit fyrir snjallsíma eða öpp til að auðvelda neytendum aðgang að þessum upplýsingum. Þá geta þeir skannað strikamerkið á vörunni og séð hvaða skaðlegu efni varan inniheldur og hvort þau eru á listanum. Menn hafa líka sums staðar verið að búa til öpp yfir hormónaraskandi efni, sem menn hafa sérstakar áhyggjur af.

Þessi löggjöf var mikið framfaraskref. Þegar ákveðið var að fara í þetta verk kom meðal annars fram að menn töldu að þetta mundi minnka til að mynda krabbamein, vegna þess að sum þessara efna valda beinlínis krabbameini. Þetta var ekki gert að ástæðulausu. Það sem er sérstakt áhyggjuefni er að þessi efni hafa líka verið notuð í barnavörur og leikföng, í plast í ýmiss konar matarílátum og öðru slíku. Það er ástæða til að fara alveg sérstaklega varlega þegar börn eru annars vegar.

Annars staðar á Norðurlöndum hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða, en við höfum verið ótrúlega sofandi gagnvart þessu. Það er einhver umræða af og til, en mér finnst ekki eins og það sé almenn vitneskja hjá neytendum að það sé kannski þess virði að leita að vörum sem innihalda ekki skaðleg efni. Ég skil að vissu leyti að neytendur hugsa sem svo: Af hverju í ósköpunum ættu skaðleg efni að vera leyfð? Eru það ekki stjórnvöld eða aðrir sem tryggja það? En það er ekki þannig, vegna þess að framleiðendur hafa haft sitt fram allt of lengi, þess vegna sitjum við uppi með skaðleg efni og við þurfum að bregðast við því.

Eitt sem við þekkjum á Íslandi, og er norræn samvinna, er umhverfismerkið Svanurinn. Það er vottun sem aðeins þær vörur fá sem eru umhverfisvænstar í sínum flokki og vörur sem innihalda eins lítið af óæskilegum efnum og mögulegt er. Vara sem vottuð er með svansmerkinu uppfyllir mjög strangar kröfur.

Danir hafa haft mikinn áhuga á þessum málum og dönsk stjórnvöld verið í fararbroddi og eru aðgerðir þeirra hreinlega til eftirbreytni. Þeir voru fyrstir þjóða til að banna ákveðnar tegundir þalata, sem eru mýkingarefni í plasti. Þeir bönnuðu efnið bispehnol-A í pelum og matarílátum fyrir börn árið 2010. Ári síðar gerði Evrópusambandið slíkt hið sama. Dönsk stjórnvöld náðu árið 2013 þverpólitískri sátt um að fara í átak gegn skaðlegum efnum í neysluvörum. Fyrir tímabilið 2014–2017 var sett á fót sérstakt ráð sem í sátu meðal annars aðilar frá neytendasamtökum, samtökum í iðnaði og stjórnvöldum og þau veittu dönsku neytendasamtökunum, Forbrugerrådet, 17,5 milljónir danskra króna til að setja á fót verkefnið „Tænk kemi“, sem hefur það markmið að fræða neytendur um innihald þessara efna í ýmsum neysluvörum.

Í Svíþjóð hafa stjórnvöld sett langtímastefnu í umhverfismálum sem nær langt út fyrir kjörtímabil og er mjög áhugaverð. Um hana má lesa um á vef sænskra stjórnvalda. Þeir eru með sex höfuðstefnumál, svo sem loftgæði, hlýnun jarðar, hreint vatn og svo eiturefnalaust umhverfi, eða „giftfri miljö“. Í þeim málaflokki er almenn stefna að auka rannsóknir á skaðlegum eiginleikum efna, bæta upplýsingaflæði til neytenda og stuðla að lagaumhverfi sem verndar umhverfi og fólk. Undir hverju stefnumáli eru sérhæfari undirmarkmið skilgreind. Það eru átta slík í flokknum um eiturefnalaust umhverfi. Eitt undirmarkmið er til dæmis að draga úr áhrifum efnavara á vöxt og þroska barna.

Mér finnst það hvernig Svíar stilla þessu upp til fyrirmyndar, langtímasýn þeirra í öllum málaflokkum sem snúa að umhverfismálum.

Norska þingið samþykkti í janúar árið 2015 þingsályktun um að stjórnvöld skyldu gera aðgerðaáætlun um eiturefnalausan virkan dag, þetta er kannski ekki góð þýðing á „giftfri hverdag“. Í þeirri aðgerðaáætlun er meðal annars gert ráð fyrir auknu eftirliti með skaðlegum efnum í neysluvörum og betri upplýsingum til neytenda. Tekið er fram í greinargerð með þessari tillögu að Danir og Svíar hafi í mörg ár haft stefnu í þessum málum og kominn sé tími til að Norðmenn geri slíkt hið sama, sérstaklega sé mikilvægt að vernda börn gegn þeim fjölmörgu efnum sem þau eru útsett fyrir.

Norðurlandaráð hefur líka kallað eftir árangursríkari stefnu varðandi kemísk efni sem verndar neytendur, og sérstaklega börn, og hvatt til þess að notkun á efnum á fyrrnefndum kandídatslista verði stöðvuð án tafar.

Stjórnvöld á Íslandi virðast aldrei hafa mótað stefnu í þessum málaflokki eða sett fjármagn í sérstakt átak eins og þekkist annars staðar á Norðurlöndum og ekki að sjá að umfjöllun um skaðleg efni í neysluvörum hafi yfir höfuð farið fram á Alþingi nema kannski í tengslum við innleiðingu á EES-tilskipunum. Í ljósi þess að löggjöf um efni og efnavörur verndar ekki neytendur og hefur í of miklum mæli tekið mið af hagsmunum framleiðenda er það ábyrgðarhluti af stjórnvöldum að sjá ekki til þess að neytendum sé tryggð góð upplýsingagjöf. Við vitum að það eru allt of mörg skaðleg efni í umferð sem hafa áhrif á heilsu fólks og umhverfið og það er líka staðfest að mörg þeirra eru heilsuspillandi. Neytendur eiga rétt á þessum upplýsingum og þeir eiga rétt á því að geta tekið meðvitaða ákvörðun þegar þeir kaupa vörur. Það er stjórnvalda að tryggja að svo sé.

Flutningsmenn eru úr öllum flokkum, þingmenn Bjartrar framtíðar og úr öllum hinum flokkunum. Við leggjum til að stjórnvöldum verði gert að móta stefnu um það hvernig megi draga úr notkun á skaðlegum efnum og koma í veg fyrir að þau hafi skaðleg áhrif á fólk og umhverfi. Við leggjum til að horft verði til annarra norrænna ríkja, sem hafa verið í fararbroddi í þessum málaflokki.

Þetta mál gengur væntanlega til umhverfis- og samgöngunefndar. Mér finnst mjög mikilvægt að fá það í umsagnarferli.

Við erum að hugsa um áhrif efnanna á okkur þegar við notum vörurnar, kremin eða hvað það er, fartölvurnar, en það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af skaðanum sem þessi efni valda strax við framleiðsluna í þeim löndum þar verið er að framleiða vörurnar og löggjöf er ábótavant. Þar vinnur fólk við að nota efnin, jafnvel ekki í hlífðarbúningi og þar fram eftir götunum og skaðlegum efnum er hleypt út í umhverfið vegna þess að þar er ekki nægilega sterk umhverfislöggjöf. Það eru mörg dæmi þess að verkafólkið sem framleiðir varninginn fyrir okkur veikist vegna starfa sinna. Það er líka ábyrgðarhluti.