145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

mótun stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum.

247. mál
[16:42]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir að mæla fyrir þessu máli og meðflutningsmönnum hennar. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu mjög. Það var í febrúar á síðasta ári sem ég lagði fram fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra um notkun þalata og voru nú margir sem slógu því upp í grín, sérstaklega eftir að ég skrifaði grein þar sem ég stiklaði á stóru í málinu. Það voru ekki síst fjölmiðlar sem endurspegluðu svolítið tepruskap sinn þegar þeir einblíndu meira á að þessi efni væru notuð við gerð kynlífsleikfanga en alvarleika málsins sem er afleiðingar þessara efna.

Mig langar einmitt að koma inn á það sem kom fram í svari umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn minni og tengist í raun þessari þingsályktunartillögu, en það er að skaðsemi þalata hefur verið þekkt um áratugaskeið. Þó svo að við horfum kannski fyrst og fremst á notkun þalata í hlutum þá er ekki gerð krafa um innihaldslýsingu eða hættumerkingar á hlutum og þá er neytandanum í raun ekki gefið val um hvort hann vilji taka áhættuna á því að nota vöruna eða ekki. Neytandinn getur hins vegar kallað eftir upplýsingum eins og komið er inn á þingsályktunartillögunni og hefur seljandinn 45 daga frest til þess að gefa þær upp. Það er einmitt komið inn á það í svarinu að eina leiðin til að hafa eftirlit með þessu sé að efnagreina vöruna til að sannreyna hvort hún innihaldi þalöt, en að slíkar greiningar séu mjög kostnaðarsamar og þess vegna hafi ekki verið ráðist í þær hér á landi. Þetta tel ég vera mjög alvarlegt, sér í lagi vegna þess að hlutur netverslunar á markaðnum fer sívaxandi við þau lönd þar sem talið er að notkun sé meiri á ódýrari efnum sem ekki hafa farið í gegnum eins miklar prófanir og rannsóknir. Þó svo að Umhverfisstofnun fylgist með tilkynningum um ólöglegar vörur á evrópskum markaði og niðurstöðum og markaðskönnunum í nágrannalöndum okkar, þá er ekki endilega þar með sagt að þær komi frá nákvæmlega sömu aðilum og verið er að versla við í gegnum netverslun.

Síðan langar mig að koma inn á það sem kemur fram í greinargerðinni með ályktuninni og tek heils hugar undir það að í löggjöf á þessu sviði hefur allt of mikið verið horft á hagsmuni framleiðenda, miklu meira en hagsmuni almennings og neytenda. Ég mundi telja eins og kom fram í svari hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn minni að æskilegt væri að Umhverfisstofnun mundi alla vega öðru hverju láta efnagreina vörur til að ganga úr skugga um að þær uppfylltu kröfur sem til þeirra eru gerðar. Ég tel að við séum svolítið að kasta þeim möguleika á glæ með því að ákveða bara að þetta sé allt of kostnaðarsamt. Við höfum ekki einu sinni athugað hvort við getum gert einhverjar stikkprufur, hvað það mundi kosta okkur.

Skaðsemi ákveðinna þalata er þekkt, þau geta t.d. haft áhrif á frjósemi manna. Þá eru fóstur og nýfædd börn viðkvæmust fyrir þessum efnum, en þau hafa fundist í naghringjum, snuðum, pelum, brjóstapumpum og fleiru sem notað er í kringum börnin og við umönnun ungbarna. Þá kom upp umræða fyrir nokkrum árum um þessi skaðlegu efni og notkun þeirra í plastflöskum, brúsum, einnota plastglösum og svo framvegis. Ég tel því að þetta sé ekki málefni til þess að gera lítið úr eða reyna að gantast með. Þessi efni eru þrávirk og safnast upp í líkama okkar.

Varðandi 45 daga frest framleiðandans til að svara því hvort varan geti verið skaðleg þá finnst mér í rauninni óboðlegt að neytandinn þurfi annaðhvort að ákveða að kaupa vöruna og bíða þá í von og óvon um að heyra hvort hún geti valdið honum einhverjum skaða, eða að sleppa því að kaupa vöruna og reyna að leita eitthvert annað eða fara í flóknara ferli, allt til þess að spara nokkra aura í rannsóknarvinnu fyrir fram. Við erum í rauninni að ýta þessu á undan okkur, rannsóknarvinnan fer ekki fram fyrr en eftir á og bara ef sóst er eftir því.

Eins og kemur fram í greinargerðinni með tillögunni á eftir að rannsaka þúsundir efna. Það eru nú sumir sem segja að ef þú þekkir ekki tvö eða fleiri efni í matvælunum þínum þá ættir þú kannski að sneiða hjá þeim. Þá spyr ég: Hvað með öll þessi skaðlegu efni sem er að finna t.d. í plastílátunum sem við geymum matvæli okkar í? Eigum við ekki rétt á að fá að vita hvað er að finna í þeim? Það er ákveðin hætta sem fólki stafar af þessum efnum í neysluvörunni og meira að segja neysluvörum sem við nýtum á hverjum einasta degi. Það eru jú greinanlegir sjúkdómar eins og hefur verið komið inn á í síðustu ræðum, krabbamein, ofnæmi og ófrjósemi. En hvað með alla þá sjúkdóma og einkenni sem við tengjum efnin ekki við eða finnast ekki við einfaldar rannsóknir, en við förum kannski frekar í einfaldar en flóknar rannsóknir? Veldur þessi sparnaður þá kannski því að einhverjir einstaklingar í samfélaginu lifa við skert lífsgæði á einhvern hátt vegna óafvitandi nálægðar við þessi efni eða neyslu á þeim? Sá kostnaður kemur þá bara í bakið á ríkinu síðar meir. Við ættum frekar að leggjast í rannsóknir sem ég tel mjög mikilvægar.

Við tölum oft um það í þessum ræðustól að við eigum að styðja við mannréttindi. En á sama tíma erum við farin að panta meira í gegnum vefverslanir af vörum frá löndum sem eru ekki eins þróuð og við, þar sem er minna eftirlit, bæði með mannskap og því hvaða efni er verið að nota, og umhverfisvernd er lítil. Það er lágmarkskostnaður í framleiðslunni, notuð eru kemísk efni og verri efni og ódýrari í stað þeirra sem búið er að prófa enda er kostnaðurinn við náttúrulegu og vottuðu efnin svo mikill við það eftirlit sem þarf.

Svo vil ég taka undir það að aðrar Norðurlandaþjóðir og löndin í kringum okkur hafa staðið sig mjög vel í þessum málum. Ég sat í Norðurlandaráði í tvö ár þar sem var oft rætt um þessi málefni og ekki bara á sviði umhverfisnefndar heldur einnig hjá velferðarnefnd þar sem menn gerðu sér fyllilega grein fyrir þeim áhrifum sem þessi efni geta haft. Það er alveg orðið tímabært fyrir okkur að ganga til verks. Danir hafa verið mjög framarlega á þessu sviði og farið í átak gegn skaðlegum efnum í neysluvörum. Það er spurning hvort við getum horft til þeirra, ég er mjög hrifin af þeirri stefnu sem þeir tóku þó svo að stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndum hafi einnig sett sér mjög góð markmið í þessum málum.

Það kemur fram í greinargerðinni að ekki er að sjá að umfjöllun um skaðleg efni í neysluvörum hafi farið fram á Alþingi, en það er ekkert skrýtið, ég veit af eigin reynslu að þegar það er gert þá er gert lítið úr því. Einstaklingar eru í rauninni látnir sitja uppi með að málið þykir ekki krassandi út frá þeim þætti að við erum að reyna að vara fólk við og að reyna að fá stjórnvöld með okkur og reyna að sameinast um að hugsa um hag neytendanna, heldur er einblínt meira á það að þessi efni séu í vörum sem fólk álítur að eigi ekki að minnast á upphátt.

Í lok ræðu minnar vil ég taka heils hugar undir þessa tillögu um að stjórnvöld móti stefnu og reyni að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum og komi í veg fyrir þau skaðlegu áhrif sem þau geta haft. Ég tek einnig undir með hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur sem benti áðan á þann kostnað sem efnin geta valdið. Það er okkar stjórnvalda að reyna að finna leið til þess að stuðla að heilbrigði borgaranna, en einnig að kasta ekki á glæ þeim tækifærum sem við höfum til að koma í veg fyrir þann kostnað sem getur lagst á síðar, við eigum frekar að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir.