145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

efling Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.

242. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. Flutningsmenn tillögunnar eru auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Haraldur Benediktsson.

Tillagan hljóðar upp á að Alþingi álykti að fela hæstv. heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvernig hægt sé að efla starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og auka fjárveitingar til hennar með það að markmiði að standa vörð um starfsemina og minnka álag á Landspítala. Þessi tillaga, sem lögð var fram í haust, miðaði að því að starfshópurinn mundi skila niðurstöðum eigi síðar en í apríl 2016. Þegar ég hef lokið máli mínu og umræðum er lokið og málinu hefur verið vísað til nefndar þarf líklega að endurskoða þá dagsetningu sem lögð er til í umræddri tillögu.

Ég ætla hér, með leyfi hæstv. forseta, að fara örlítið yfir þá greinargerð sem fylgir tillögu þessari. Þar segir:

„Þingsályktunartillaga þessi hefur það að markmiði að styrkja innviði, efla starfsemi og standa vörð um starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.“

Í því samhengi er verið að tala um allar þær starfsstöðvar sem liggja undir í þessari tillögu, allar þær starfsstöðvar sem flokkast undir Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Stærstu einingar hennar má finna á Akranesi og auk þess er mjög öflug bakdeild og ýmiss konar önnur starfsemi í Stykkishólmi; að standa vörð um starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og minnka að sama skapi álag á Landspítala.

Ástæðan er sú að undanfarin ár hefur álagið á Landspítalann aukist verulega. Það hafa orðið sameiningar á heilbrigðisstofnunum víða um land og fyrir nokkrum árum var deild meðal annars lokað á Akranesi og síðan hefur deildum verið lokað í Keflavík og á Selfossi. Auk þess hefur staðan líka verið þannig undanfarin ár, sökum ýmissa aðstæðna, að erfiðara er að fá tíma hjá heilsugæslu- og heimilislæknum en oft áður. Í of mörgum tilvikum hefur fólk þurft að leita til bráðaþjónustu Landspítala. Við flutningsmenn tillögunnar teljum að hægt sé að minnka álag á Landspítalann með því að efla þessar stofnanir sérstaklega í kringum höfuðborgina að nýju og færa til dæmis verkefni sem krefjast ekki bráðaþjónustu yfir til þeirra.

Lagt er til að ráðherra komi á fót starfshópi sem hafi það hlutverk að greina starfsemi stofnunarinnar, sem sagt Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, ítarlega og skila að því búnu hugmyndum og tillögum um með hvaða hætti verði hægt að efla starfsemina og auka fjárveitingar til stofnunarinnar. Lögð er áhersla á að vinna starfshópsins gangi hratt og vel fyrir sig og því er lagt til að hann skili niðurstöðum eigi síðar en í apríl á næsta ári, stendur í greinargerð, en það á við um þetta ár.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur þurft að ganga í gegnum erfiðan niðurskurð. Í kjölfar bankahrunsins þurfti að fara í sársaukafullar hagræðingar- og niðurskurðaraðgerðir á stofnuninni. Loka hefur þurft einni deild á Akranesi og störf hafa glatast, auk þess sem dregið hefur verið saman hjá öðrum starfsstöðvum stofnunarinnar. Á sama tíma hefur álag á Landspítala aukist, auk þess sem hann hefur ekki farið varhluta af hagræðingar- og niðurskurðarkröfum í kjölfar hrunsins.

Þess má geta að undanfarin ár hefur verið bætt í þó að við þurfum að halda áfram á þeirri vegferð. Flutningsmenn benda á að ein leið til að minnka álagið sé að færa þær aðgerðir sem ekki þarfnast bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnanir í nágrenni Reykjavíkur og má í því sambandi benda á að Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi er eingöngu í 45 mínútna akstursfjarlægð frá Landspítala.

Einnig hefur verið bent á, af aðilum sem þekkja til, að sjómílur á milli Reykjavíkur og Akraness eru fáar og tæki ekki langan tíma að fara hér á milli á annan hátt. Auk þessa telja flutningsmenn ástæðu til að gera Heilbrigðisstofnun Vesturlands að varasjúkrahúsi fyrir Landspítala. Mig langar aðeins að fjalla um það.

Þessir aðilar telja að það landsvæði sem Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi er á sé mjög hentugt svæði, því að þar eru ekki jarðhræringar og ekki hætta á slíkum atvikum. Ef eitthvað kæmi fyrir hér á höfuðborgarsvæðinu þyrftum við að hafa sjúkrahús í nágrenni höfuðborgarinnar sem væri í stakk búið til að taka á ef við þyrftum á bráðaaðgerðum að halda.

Það er mikilvægt hagsmuna- og öryggismál fyrir íbúa Vesturlands að Heilbrigðisstofnun Vesturlands verði efld og þjónustustig stofnunarinnar verði aukið. Því er mikilvægt að ráðist verði í heildræna yfirferð á starfsemi stofnunarinnar með eflingu og styrkingu hennar að leiðarljósi.

Þarna komum við að atriði sem mig langar aðeins að ræða um. Samkvæmt þingmálaskrá hæstv. heilbrigðisráðherra er unnið að heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Það væri jafnvel hugmynd að skoða þau markmið sem sú þingsályktunartillaga felur í sér í samræmi við þá heilbrigðisáætlun, og til hvaða þátta við erum að horfa við gerð heilbrigðisáætlunar fyrir Ísland. Mig langar því aðeins að vitna í fyrirspurn sem ég sendi á hæstv. heilbrigðisráðherra á dögunum þar sem ég spurði út í þá vinnu sem er í gangi varðandi heilbrigðisáætlun og hvenær áætlað er að þeirri vinnu verði lokið og hvaða aðilar komi að henni. Þar spyr ég jafnframt hvort horft sé til byggðasjónarmiði, aldurssamsetningar, íbúa, íbúaþróun, staðsetningar heilbrigðisstofnana og hvaða þjónustu við ætlum að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið. Ég tel að við þurfum með markvissum hætti að skoða það af því að við þurfum að gera, sem ég veit að er unnið að, heilsugæslustöðvarnar okkar og heilbrigðisstofnanir í landinu að fyrsta viðkomustað sjúklinga, að sjúklingar sæki ekki inn í dýrari þjónustu sem meðal annars er veitt á Landspítalanum, að þeir fari í meira mæli inn á þær stofnanir sem eru í nærumhverfi þeirra þar sem ekki er jafn dýr þjónusta og veitt er á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í þeirri sérhæfingu sem þar er.

Ég legg til að þingsályktunartillagan gangi til hv. velferðarnefndar að umræðu lokinni.