145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

innflutningur nautasæðis til eflingar innlendri mjólkurframleiðslu.

78. mál
[17:32]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt um landbúnaðarmálefni á undanförnum vikum í íslensku samfélagi í kjölfar þess að undirritaðir voru nýir búvörusamningar. Og sitt sýnist hverjum. Margir halda því fram að kominn sé tími til þess að landbúnaðurinn fái minni styrki úr ríkissjóði en hingað til hefur verið raunin. En hvað sem því líður, hvernig sem menn líta á það, er ljóst að við verðum að gefa íslenskum bændum færi á því að hafa þau tæki og tól sem völ er á til að skila hagkvæmum rekstri.

Eitt af því sem hægt er að gera í því tilliti er að bæta þann stofn sem notaður er til mjólkurframleiðslu á Íslandi. Það er ástæðan fyrir þessari tillögu, sem ég flyt ásamt hv. þm. Brynjari Níelssyni. Þess má geta að á síðasta löggjafarþingi var hv. þm. Pétur H. Blöndal einnig flutningsmaður tillögunnar.

Meginmarkmiðið er að nýta þau sóknarfæri sem landbúnaður stendur frammi fyrir og það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þar sem vel er tekið á þessum málum varðandi landbúnaðinn. Það er ljóst að til þess að ná áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði þarf greinin að búa sig undir aukna erlenda samkeppni og hafa þá til þess úrræði.

Í stefnumörkun Landssambands kúabænda til ársins 2021 er gert ráð fyrir að tryggja öruggt framboð hágæðamjólkur og mjólkurafurða fyrir íslenska neytendur á hagstæðu verði, viðhalda góðri ímynd íslenskrar nautgriparæktar, efla samkeppnishæfni greinarinnar og afla arðbærra útflutningsmarkaða. Það eru markmiðin hjá kúabændum.

Við þekkjum það að aukin eftirspurn hefur verið eftir mjólkurvörum á undanförum missirum. Það var frægt þegar allt smjör var að verða uppurið hér á landi vegna þess að Íslendingar breyttu aðeins neysluháttum sínum og vildu borða meiri fitu. Þá gerðist það að Mjólkursamsalan flutti inn þrjá gáma af írsku smjöri til ostaframleiðslu sem voru að mínu mati ein stærstu mistök sem það ágæta fyrirtæki hefur gert á sínum ferli. En það er alveg ljóst að við verðum að geta brugðist við þegar eftirspurn eykst.

Kúastofninn okkar er ekki stór. Tölur frá árinu 2011 sýna að þá voru mjólkurkýr rúmlega 25.000, tæplega 26.000. Á því ári voru um 680 kúabú sem lögðu inn mjólk. Ég tel að þau séu um 650 í dag. Kynið okkar kom til landsins með landnámsmönnum og íslenskar kýr hafa í gegnum tíðina ekki blandast að miklu marki öðrum nautgripakynjum enda erum við einangruð hér á eyjunni.

Þegar við skoðum tölfræðina, hvernig þessi stofn er að skila afurðum af sér, þá er alveg ljóst að íslenski kúastofninn nær ekki þeirri framleiðslu sem önnur lönd ná. Þrátt fyrir að meðalnyt hafi aukist allnokkuð á undanförnum árum, vegna kynbóta og bættrar fóðrunar, er afurðasemin umtalsvert lakari en í algengustu kúakynjum nálægra landa. Og þar munar miklu.

Miðað við þá tölfræði sem fyrir liggur eru meðalafurðir hér á landi svipaðar og voru í Skandinavíu í kringum 1980, þannig að við stöndum nágrönnum okkar langt að baki. Þess má geta að meðalnyt í Danmörku árið 2013 var 9.603 kg á hverja árskú. Það er meðalnytin, en afurðahæstu búin skila um 14.000 kg á árskú en meðalnyt íslenskra kúa árið 2013 voru 5.555 kg. En þegar búið er að taka þá tölu og leiðrétta fyrir fitu- og próteininnihaldi — við verðum að bera saman réttu tölurnar. Í þingskjalinu, í tillögunni til þingsályktunar, er hægt að fletta upp samanburðarmynd sem sýnir þessar tölur svart á hvítu.

Þegar maður er með smáan stofn þá er hætta á skyldleikaræktun. Til er svokallaður skyldleikaræktarstuðull sem er 9% á Íslandi og þykir í hærri kantinum miðað við önnur lönd. Það þarf að tryggja að skyldleikaræktunin verði kúastofninum ekki að falli, þ.e. að honum fari ekki að hraka vegna skyldleika. Það er misjafnt hvaða álit sérfræðingar hafa á því hversu langt við erum komin í því efni en einhverjir halda því fram að við séum komin að hámarki í því að taka áhættu í því að skyldleikarækta. Ef fara á lengra í þá átt að draga úr skyldleikaræktun verður það aðeins gert með því að draga úr framleiðni; leggja minni áherslu á þann lið.

Þá er í greinargerð með tillögunni rakin sagan varðandi tækniþróunina en eins og menn vita hafa mjaltaþjónar verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum hér á landi og eru mikið notaðir og breyta í raun mjög því starfsumhverfi sem mjólkurbændur hafa í sínum daglegu störfum. Það vekur óneitanlega athygli að mjaltir með mjaltaþjónum hér á landi eru mun vinnufrekari en gerist í nágrannalöndum okkar. Þannig eyða, samkvæmt niðurstöðu könnunar sem hér er vitnað til, íslenskir bændur að meðaltali einni og hálfri klukkustund í þjón á dag við mjaltir, í þjónustu við mjaltaþjóninn, meðan um er að ræða hálfa klukkustund í þjón á dag í samsvarandi erlendum könnunum.

Það er ljóst að gríðarleg fjárfesting felst í því að breyta fjósum landsins yfir í róbótafjós og margir bændur hafa ráðist í miklar fjárfestingar og eru að búa sig undir miklar fjárfestingar. Þá skiptir það sköpum í rekstrinum í framhaldinu hvernig afköstin eru. Það er erfitt að horfa upp á að árið 2013 var nýting hvers mjaltaþjóns að jafnaði 230.000 lítrar hér á landi meðan að nýtingin er til dæmis umtalsvert meiri í Danmörku eða um 650.000 lítrar. Þá erum við að tala um meðaltalstölur.

Landbúnaðarháskóli Íslands skipaði starfshóp á sínum tíma til að fara yfir hvaða árangur væri líklegur af því að skipta um kúakyn. Niðurstöðurnar voru í stuttu máli þær að talið var að sterkar vísbendingar liggi fyrir um að nyt verði betri með nýju kúakyni, kjötframleiðsla meiri, tíðni sjúkdóma lægri, og vinna við mjaltir minni. Það eru niðurstöður rannsókna að íslensk meðalkýr standi sig mun lakar en kýr í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hvað framlegð í mjólkurframleiðslu varðar. Munar þar mest um mismunandi mjólkurnyt. En kúabændur geta bætt heildarafkomu sína með því að auka meðalnyt kúa sinna.

Þá er talsvert fjallað um þær rannsóknir sem farið hafa fram á því hvaða kúakyn væri heppilegt til innflutnings hér. En við gerum ekki tillögu um það í okkar máli að þetta sé afmarkað við eitthvað ákveðið. Enda erum við engir sérstakir spámenn um það hvert framtíðin mun leiða okkur í þessu efni.

Þegar Landssamband kúabænda sótti á sínum tíma um leyfi til að flytja inn erfðaefni holdanauta frá Noregi var óskað eftir því að framkvæmt yrði áhættumat vegna innflutnings og það var gert. Til dæmis var verið að reyna að meta hvaða hætta væri í því fólgin að smitsjúkdómar bærust með þessum efnum frá Noregi. Niðurstaðan liggur fyrir. Áhættumat Matvælastofnunar liggur fyrir. Miðað við þær niðurstöður eiga að vera litlar líkur á að það gerist.

Það eru ýmsir möguleikar í því að flytja inn sæðið. Tækninni hefur fleygt fram og nú eru menn í því í nágrannalöndum okkar að kyngreina sæði þannig að þú getir verið viss um að besta mjólkurkýrin komi með kvígu o.s.frv. Það er því ýmislegt hægt að gera ef maður vill fara í slíkar æfingar.

Það er okkar mat að það sé eðlilegt að gert verði ráð fyrir því fyrst um sinn að um tilraunaverkefni verði að ræða þannig að við stígum skrefin varlega. Það hefur líka talsvert verið rætt um það, og var rætt um það á sínum þegar umsóknin kom fram frá kúabændum, að það væri glapræði að spilla íslenska stofninum. En það á ekki að þurfa að gerast. Hægt er að ráðast í ýmsar mótvægisaðgerðir og það getur vel verið að ýmsir íslenskir bændur kjósi að halda sig við íslenska kúakynið. En það er hvatning okkar hér til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ráðist verði í mótvægis- og verndaraðgerðir samhliða framlagningu lagafrumvarps um þetta.

Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að þetta mál gangi til atvinnuveganefndar til meðferðar.