145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

innflutningur nautasæðis til eflingar innlendri mjólkurframleiðslu.

78. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég treysti því að atvinnuveganefnd afli sér nýjustu gagna við vinnslu málsins í nefndinni. Nú er það svo varðandi stöðu þingmála að þetta mál var lagt fram á haustdögum þegar þingið var að koma saman, en vegna vinnslu mála er það ekki fyrr en nú sem ég fæ að mæla fyrir því hér í þingsal.

Ég heyri að þingmaðurinn hefur ekki neinar áhyggjur af því að stofninn er lítill og skyldleikinn er orðinn mikill. Ég verð að segja að það hryggir mig svolítið að menn vilji ekki taka þessar áhyggjur fræðimanna alvarlega. Það er ekki þannig að maður eigi að vera með það einstrengingslegar skoðanir að maður vilji ekki hlusta á ráðleggingar annarra.

Ég skil alveg hvað þingmaðurinn er að segja um að vilja halda íslenska kúakyninu hreinu. Ég hef alveg heyrt ræður Guðna Ágústssonar hér á árum áður. En það þýðir ekki að við getum ekki gert hvort tveggja. Í síðasta kafla tillögunnar er talað um, og við erum að leggja það til hér, að ráðherra fari jafnframt í mótvægis- og verndaraðgerðir, og vísum við þar meðal annars til Ríó-sáttmálans.

Stofninn okkar er auðvitað merkilegur. Það er merkilegt að hafa verið einangruð hér á eyjunni í aldaraðir. Það er mjög merkilegt. En það þýðir ekki að ekki sé hægt að búa til plan sem hægt er að vinna eftir til þess að vernda. Að sjálfsögðu getum við þar meðal annars lært af reynslu nágranna okkar sem hafa ekki undirbúið breytingar sem þessar nægilega vel.