145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

fyrirspurnir á dagskrá.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemdir við það að á dagskrá í dag eru svör við mörgum fyrirspurnum til munnlegs svars en ekki svar við fyrirspurn hv. þm. Kristjáns L. Möllers frá 26. janúar sl. til fjármálaráðherra um tiltekna þætti vegna Borgunarsölunnar. Þetta er sérstaklega athugunarvert í ljósi þess að Bankasýsla ríkisins taldi sig bæra til þess að senda bréf til bankaráðs Landsbankans í morgun og kallaði eftir því að bankinn gripi til viðeigandi ráðstafana til að endurheimta það traust sem bankinn tapaði vegna sölumeðferðarinnar. Að óbreyttu, fyrst fyrirspurninni er ekki svarað í dag, verður henni ekki svarað fyrr en einhvern tímann í apríl. Ég spyr: Ef Bankasýslan er í færum til þess að draga ályktanir og senda bréf til Landsbankans, af hverju er þingið ekki upplýst um þá stöðu? Til hvers er það leynimakk að halda fyrirspurn ósvaraðri þangað til í apríl? Við vitum af þessu bréfi hvar ábyrgðarkeðjan byrjar. Hún byrjar hjá bankastjóra Landsbankans. Það var svo sem þokkalega vitað áður, en við vitum ekki hvar hún endar. Þingið þarf að fá fullar upplýsingar (Forseti hringir.) um þetta mál og stöðu þess í þaula svo við getum rakið ábyrgðarkeðjuna áfram.

Það er til vansa að fjármálaráðherra svari ekki þessari fyrirspurn sem þingmaðurinn (Forseti hringir.) hefur verið tilbúinn að mæta í hér vikum saman.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna