145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

fyrirspurnir á dagskrá.

[15:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni sem vekur máls í upphafi þingfundar, í upphafi fyrirspurnafundar, á tveimur fyrirspurnum sem ég lagði fram í lok janúar um málefni Borgunar og Landsbankans. Önnur er til skriflegs svars og það svar hefur ekki komið. Hin er til munnlegs svars fjármálaráðherra um söluferli í Borgun og ýmislegt sem varðar það mál.

Það er ósköp eðlilegt að við þingmenn spyrjum hæstv. forseta hverju það sæti að fyrirspurnin er ekki á dagskrá í dag. Ég hef fengið, eins og allir þingmenn fá þegar verið er að undirbúa fyrirspurnafundi, þrjú eða fjögur bréf frá Alþingi í tölvupósti þar sem ég er spurður hvort ég sé tilbúinn að vera með fyrirspurn á dagskrá. Ég hef alltaf svarað slíku játandi.

Mér er líka kunnugt um að til hefur staðið að svara fyrirspurnunum. Þegar ég hef gengið eftir því hvort svarað verði á mánudegi eða ekki, kemur það stundum fyrir á lokametrunum, á síðustu stundu, að sagt er að fyrirspurninni verði ekki svarað.

Það er mjög eðlilegt að forseti sé spurður hverju það sæti að fjármálaráðherra svari ekki fyrirspurn um það mál sem rætt er svo mikið í þessu landi, um söluna á Borgun og það sem hér kemur fram, að fyrirspurninni verði ekki svarað fyrr en ef til vill um miðjan apríl.

Nú er mér ekki kunnugt um hvenær aðalfundur Landsbankans verður (Forseti hringir.) en ég tek eftir því sem stendur í blöðum í dag að Bankasýslan hefur svarað hvað þetta varðar, vegna þess að í fyrirspurninni var óskað eftir því að fjármálaráðuneytið leitaði upplýsinga frá Bankasýslu ríkisins.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna