145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

uppbygging nýs Landspítala.

[15:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um sama mál, þ.e. uppbyggingu nýs Landspítala. Nú rekur mig minni til þess að þann 1. apríl 2015 velti hæstv. forsætisráðherra því upp hvort ekki mætti færa nýjan spítala upp í Efstaleiti og kvaðst gjarnan vilja að minnsta kosti sjá útreikninga um það á servíettu eða svo, bara svo við gætum velt því fyrir okkur. Nú kemur hæstv. forsætisráðherra tæpu ári síðar og veltir því fyrir sér hvort ekki megi byggja upp nýjan spítala í Garðabæ. Ekki hefur enn heyrst frá hæstv. heilbrigðisráðherra hvað honum finnst um þau áform hæstv. forsætisráðherra. Mér leikur hugur á að vita hvort hæstv. forsætisráðherra sé búinn að gera eitthvað meira með þetta en að reikna það út á servíettu eða hvort hann muni koma með nýja hugmynd að einhverjum mánuðum liðnum um uppbyggingu.

Nú er það svo varðandi þessa staðsetningu, sem vissulega hefur verið umdeild, að ein veigamestu rökin fyrir henni eru þau að Landspítali er háskólasjúkrahús. Þar eru stundaðar margar af merkilegustu rannsóknum landsins og spítalinn er í miklu samstarfi við Háskóla Íslands. Þetta voru ein af veigamestu rökunum fyrir því þegar farið var faglega yfir málið á sínum tíma að spítalanum var fundinn staður í Vatnsmýri. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem varpar þessari hugmynd fram: Er hann búinn að gera eitthvað meira en að skoða þetta á servíettu? Er hann búinn að ráðfæra sig til dæmis við háskólasamfélagið um hvað það mundi þýða að finna nýjum spítala stað annars staðar, til dæmis í Garðabæ eins og hann hefur nefnt? Er þetta hugmynd sem hann hefur átt eitthvert samráð um við yfirmenn spítalans? Og hafa hugmyndir um breytta staðsetningu verið ræddar á vettvangi ríkisstjórnar? Eða eru þetta meira vangaveltur sem hæstv. forsætisráðherra setur fram til að vekja umræðu?