145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

uppbygging nýs Landspítala.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég minni hv. þingmann á það sem ég benti á hér áðan, um þá ákvörðun sem hún vísar til og túlkar sem svo að Alþingi hafi sameinast um að byggja nýjan spítala við Hringbraut. Það var einmitt ekki svo og tók, ef ég man rétt, nokkra daga að fá menn saman að tillögu sem var þá orðin þannig að menn ætluðu að ráðast í nauðsynlegar endurbætur við Hringbraut. (Gripið fram í.)

Svo segir hv. þingmaður, og ég gleymdi að svara því áðan, að ég hafi fyrr nefnt aðra kosti hvað varðar mögulega staðsetningu. Það er alveg rétt og ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna það. Ég hef nefnilega bent á þetta í nokkur ár og að það væru ýmsir staðir sem kæmu þar til greina. Í apríl 2015 segir hv. þingmaður að ég hafi talað um Efstaleiti. Já, ég talaði um að einn af þessum möguleikum væri að byggja upp í kringum Borgarspítalann en nefndi reyndar, meira að segja í sama viðtali, ýmsa aðra staði og þar með talið Vífilsstaði, þó að ég sé nú ekki viss um að það hafi allt saman verið spilað á endanum. En engu að síður (Forseti hringir.) hef ég árum saman bent á að það sé þess virði að skoða þessa kosti eins og aðstæður hafa verið að breytast.