145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

[15:41]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Það gleður mig mjög að heyra að frumvarp komi bráðum inn á borð þingsins og sér í lagi ef um er að ræða töluverðar breytingar.

Það fer reyndar eftir því hvaða breytingar um er að ræða. Erum við að færast nær norræna lánakerfinu þar sem hluti af láninu er oft styrkur eða öll lánin styrkur ef þú klárar námið? Eða erum við að færa okkur enn nær bandaríska módelinu þar sem maður þarf að leita á náðir sjálfstæðra lánasjóða?

Nú er það þannig að sjóðurinn stendur ekkert sérstaklega vel undir sér og þarf að huga að því. Við þurfum að tryggja að ekki sé verið að gera meiri greinarmun á aðstöðu kynslóðanna með því að láta mismunandi kynslóðir fá ólík tækifæri til að geta stundað nám. Mér finnst bera á því að mín kynslóð og sú sem á eftir kemur borgar meira fyrir það sem þið, eða eldri kynslóðin, áttuð eða gerðuð fyrst.