145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

breytingar á fæðingarorlofi.

[15:46]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka ágæta spurningu. Það er rétt sem hv. þingmaður kemur aðeins inn á, framsóknarmenn hafa árum saman verið mjög áhugasamir um eflingu fæðingarorlofskerfisins og stigið mjög stór skref í því. Í rauninni held ég að öll helstu tímamótaskref í fæðingarorlofsmálum á Íslandi hafi átt sér stað undir forustu framsóknarmanna.

Nú er búið að kynna afrakstur þeirrar vinnu sem hv. þingmaður vísaði til og er greinilega góð vinna, unnin undir forustu fyrrverandi samstarfsmanns okkar á þingi, Birkis Jóns Jónssonar. Afrakstur vinnunnar fer svo inn í það starf sem fram undan er við fjárlagagerð þar sem þessi ríkisstjórn stendur, eins og aðrar, auðvitað frammi fyrir forgangsröðun. Forgangsröðun er oft erfið, ég tala nú ekki um eins og núna þegar menn eru sammála, held ég að megi segja, um að mjög þurfi að efla heilbrigðismálin. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi líka áfram að bæta kjör eldri borgara og öryrkja. Húsnæðismálin eru stór málaflokkur. Ég gæti áfram talið upp mikilvæga málaflokka sem gera það að verkum að forgangsröðun verður alltaf erfið. Þetta góða mál fer inn í þá vinnu og vonandi getum við haldið áfram að bæta fæðingarorlof á Íslandi en þar hafa, eins og ég gat um áðan, verið stigin mjög stór skref í gegnum tíðina undir forustu framsóknarmanna.