145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

raforkumál á Vestfjörðum og Hvalárvirkjun.

564. mál
[15:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem er mjög mikilvægt að eigi sér stað, ekki síst við hæstv. ráðherra sem ég þakka líka fyrir þau jákvæðu orð sem ráðherra lét falla varðandi það verkefni sem þarna er á ferðinni. Það er líka óhætt að fagna því að loksins eru komnir fram aðilar sem sjá tækifæri til að nýta þá orku sem til er fyrir vestan og mikilvægt að við gerum allt sem við getum til að ýta undir og hjálpa þeim að fara af stað með þetta verkefni. Þetta er í rauninni grunnurinn að því að tryggja loksins Vestfirðingum örugga raforku. Um leið erum við búin að fá tækifæri til að koma á svokallaðri hringtengingu sem er ekki síður mikilvæg. Með því að fá þennan tengipunkt við Nauteyri og halda svo áfram og leggja línurnar og hringtengja Vestfjarðakjálkann við netið allt saman erum við búin að búa til nýtt umhverfi fyrir vestan þar sem menn geta í fyrsta lagi haft tryggari orku, byggt og boðið upp á ný atvinnutækifæri o.s.frv. og bætt hag allra íbúanna. Þetta nær langt út fyrir þéttbýlið á Ísafirði, þetta nær út um allan kjálkann og líka til hinna dreifðu (Forseti hringir.) byggða sem sjá mikil tækifæri í þessu.