145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

raforkumál á Vestfjörðum og Hvalárvirkjun.

564. mál
[16:00]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og aðrir þakka fyrir þessa umræðu og þakka fyrir svör hæstv. ráðherra og segja að ég held að fá verkefni geti verið jafn jákvæð fyrir Vestfirði og einmitt það sem við erum að ræða hér. Ef vel tekst til getum við verið að tala um 30–40 milljarða fjárfestingu á Vestfjörðum á næstu árum og það sjá allir að það munar um minna fyrir samfélag eins og Vestfirði.

Ég vil líka segja að ég er mjög ánægður. Allan þann tíma sem ráðherra hefur komið að þessu máli hefur hún ævinlega tekið vel í það. Ég man eftir því að fyrir tveimur árum eða svo kom ég til hæstv. ráðherra og sagði henni að ég væri tilbúinn með frumvarp sem fæli í sér að skilgreina nýjan tengipunkt og hringtengingu raforku á Vestfjörðum. Ég var búinn að teikna það frumvarp upp. Ráðherra vildi fá að skoða málið. Hún hefur gert það og hún hefur tekið vel í þessi mál alveg frá fyrsta degi, fylgt þeim fast eftir og ég treysti hæstv. ráðherra vel til að gera það áfram. Ég styð hana heils hugar í þessum verkum og segi að það er engin ástæða til annars en (Forseti hringir.) að frumvarp mitt fái að liggja áfram ofan í skúffu vegna þess að ég treysti hæstv. ráðherra til að fylgja þessu vel eftir.