145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

raforkumál á Vestfjörðum og Hvalárvirkjun.

564. mál
[16:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka þá fínu umræðu sem hér hefur orðið, bæði mjög góð svör hæstv. iðnaðarráðherra sem ég treysti á í þessu máli og veit hennar hug, hann hefur komið hér skýrt fram, svo og aðrar undirtektir sem málið hefur fengið hér.

Ég segi einungis að það skiptir mjög miklu máli að við höfum skýra sýn og skýr svör á þessari stundu því að á næstu vikum þarf að taka ákvarðanir um mjög nauðsynlegar og útgjaldafrekar framkvæmdir sem tengjast framgangi þessa verks.

Ég ætla að leyfa mér að segja í minni seinni ræðu í þessari fyrirspurn að ég held, eins og fram hefur komið líka í umræðunni að hluta til, að fáir átti sig enn á því hversu stórkostleg tækifæri eru að skapast þarna, ekki bara fyrir Vestfirðinga heldur fyrir þjóðarbúið allt. Mögulega er hægt að framleiða þarna talsvert af raforku og í því ástandi sem við erum í núna skiptir hvert megavatt máli. Auðvitað viljum við standa þannig að málum að við getum sem mest nýtt raforku á Vestfjörðum til atvinnuuppbyggingar og verðmætaaukningar þar.

Þá skulum við ekki heldur gleyma því að í dag flytjum við yfir á Vestfirði af öðrum stöðum á landinu, ef við viljum flokka þetta niður í héruð, líka talsvert mikla raforku þannig að við gætum bæði fengið þaðan viðbót og nýtt þá raforku sem fer þangað til atvinnuuppbyggingar á öðrum stöðum.

Ég segi þá einungis við lok seinni ræðu minnar um þetta mál að hæstv. iðnaðarráðherra hefur fengið mjög góðar undirtektir og á góðan stuðning í þinginu til að koma þessu mikilvæga máli áfram. Ég þakka góð svör. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)