145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

sáttamiðlun í sakamálum.

503. mál
[16:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra kærlega fyrir svörin. Þau valda ekki miklum vonbrigðum frekar en fyrri daginn. Sömuleiðis þakka ég þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls um málið.

Það er gleðilegt að heyra í hvaða farvegi þetta mál er og gleðilegt að sjá að það er raunverulegur áhugi á þessu máli. Síðasti punkturinn sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir nefndi vekur upp spurningu sem við ættum að íhuga alvarlega, þ.e. hvort úrræðið gæti verið hentugt í alvarlegri málum en í þeim brotaflokkum sem hæstv. ráðherra taldi upp áðan. Það getur verið. Alvarlegt brot er ekki endilega þess eðlis að innilokun sé besta lausnin við því. Það er alla vega alveg þess virði að skoða það.

Það er líka alveg þess virði að velta fyrir sér hvernig staðið er að menntun í þessum málum. Það getur skipt sköpum að til staðar sé einhvers konar sérfræðingur í þessum málum. Ég geri fastlega ráð fyrir að hæstv. innanríkisráðherra eigi við að það verði skoðað þegar fram líða stundir. En hvað sem því líður er mikilvægt að mínu mati að við höldum áfram að leita úrræða sem minnkað geta þörfina á innilokun sem úrræði. Við verðum að beita aðferðum sem eru uppbyggilegar þegar við sjáum færi á þeim, en að sama skapi gleður mig að sjá að viðhorfin hér á bæ, á hinu háa Alþingi, eru í það minnsta í lagi.