145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

sáttamiðlun í sakamálum.

503. mál
[16:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Eftir að fyrirspurnin kom fram verð ég að segja fyrir mitt leyti að ég hef verið dálítið hugsi. Það má kannski segja að það tengist allri umræðu okkar á þessu þingi um fullnustumál, refsingar og þann árangur sem við viljum sjá gagnvart þeim sem þurfa að fara í slík úrræði, ekki síst fyrir ungt fólk. Ég held að nú þegar hafi það sýnt sig að þetta úrræði getur gagnast verulega þegar um ungt fólk er að ræða. Ég tek eftir því sem þingmenn hafa sagt til hvatningar í þeim efnum.

Ég vil aftur þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli og halda mönnum við efnið. Ég held að það sé fullt tilefni til að fara rækilega yfir það hvernig úrræðið hefur gefist og hvort hægt sé og rétt að víkka það einhvern veginn út eða hvernig menn vilja horfa á það. Það þarf alltaf að gera það með reglubundnum hætti. Nú er óformlegur hópur að störfum, eins og ég nefndi, og ég tek það með mér aftur til baka að við skulum skoða hvort úrræðið hafi náð þeim markmiðum sem við ætluðumst til eða hvort við getum gert á því bragarbót.