145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

bygging þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi.

565. mál
[16:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er nú sjaldgæft að hv. þm. Haraldur Benediktsson bíði átekta á hliðarlínu. En ég þakka honum fyrirspurnina og sömuleiðis hæstv. ráðherra svör hans.

Nú eru liðin rösklega 20 ár frá því að ég flutti tillögu sem umhverfisráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, sem að lokum var samþykkt og varð til þess að þessu langþráða verkefni mjög margra var loksins ýtt úr vör. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að enginn hreyfði þeirri hugmynd af jafn miklum skörungsskap og Eysteinn Jónsson, einn af glæsilegustu forustumönnum Framsóknarflokksins, og má kannski kalla hann upphafsmann náttúruverndar á Íslandi.

Síðan eru liðin ákaflega mörg ár. Mörg ár eru liðin frá því að þjóðgarðurinn var formlega settur á stofn og mörg ár eru frá því að menn ákváðu að ráðast í byggingu þjóðgarðsmiðstöðvarinnar á Hellissandi. Ég held að það sé engin tilviljun að henni var valinn þar staður. Sá sem barðist mest fyrir þjóðgarðsmiðstöðinni var Skúli Alexandersson fyrrverandi alþingismaður, sem er nýlátinn. Ég held að það væri minningu hans mjög til heiðurs að menn gerðu nú reka að því að koma þessu til framkvæmdar.

Það gleður mig eins og hæstv. ráðherra hefur lýst yfir að þjóðgarðsmiðstöðin og sú sem ráðherra hefur líka (Forseti hringir.) í sínu fóstri á Kirkjubæjarklaustri eigi að fylgjast að. Það skiptir miklu máli og það skiptir máli fyrir Snæfellsnes, (Forseti hringir.) fyrir ferðaþjónustu á Íslandi og fyrir náttúruna undir Jökli að við ráðumst í þetta hið allra fyrsta.