145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

bygging þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi.

565. mál
[16:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir svör hennar.

Ég tek heils hugar undir með henni þar sem hún segir að mikilvægt sé að þessar þjóðgarðsmiðstöðvar verði byggðar upp samhliða, þ.e. miðstöðin á Kirkjubæjarklaustri og sú sem við ræðum hér um, þjóðgarðsmiðstöð Snæfellsjökuls á Hellissandi.

Hvort sem við horfum til allra innviða vegna ferðaþjónustu eða annarra þátta tel ég, eins og ég rakti í minni fyrri ræðu, að byggingin sé mikilvæg til þess að stuðla að eflingu ferðaþjónustu á Vesturlandi í heild sinni og starfsemi henni tengdri. Ég ítreka að Snæfellingar, það hógværa fólk, hefur beðið mjög þolinmótt núna í langan tíma eftir því að fá svör um það hvenær framkvæmdir við nefnda þjóðgarðsmiðstöð hefjist.

Á þeim tíma hafa líka aðrir innviðir styrkst og samfélagið sem betur fer líka eflst á öðrum sviðum. Það er núna á teikniborðinu og kemst vonandi fljótlega á þann rekspöl að tekin verði ákvörðun um frekari eflingu annarra innviða eins og fjarskipta og aukna útbreiðslu á rafstrengjum, þ.e. rafstrengjum í jörð. Það er því margt í gangi á þessu svæði sem styður við að við eigum að ráðast sem fyrst í að byggja þjóðgarðsmiðstöðina.

Ég ítreka þakkir mínar til ráðherrans og tel á þessari stundu mikilvægast af öllu að við getum sagt með nokkurri vissu að fyrirhugað sé að hefja framkvæmdir við þjóðgarðsmiðstöðina á Hellissandi sem fyrst.