145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

bygging þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi.

565. mál
[16:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég endurtek að það er ásetningur minn að leita leiða til þess að fjármagna þetta þarfa verkefni, en fjármagnið er ekki í höfn í þessum töluðum orðum. Leita ég nú bæði til hv. þingmanns og frummælanda hér að hann muni að styðja það eftir fremsta megni að við fáum fjármagn til verkefnisins. Ég veit að hann mun gera það.

Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta en við eigum að halda okkur við staðsetninguna, þarna eru ekki deilur um staðsetningu. Það búið að ákveða hana, þ.e. á safnasvæðinu á Hellissandi og ég mun ekki breyta því. Mér finnst þetta vera flott bygging, hún er náttúrlega nokkuð dýr, og svona aðeins 2007-módel. Það er búið að minnka hana aðeins með því að taka út fræðimannaíbúð sem var í byggingunni til þess að lækka kostnaðinn. En við sjáum ekki annað en að miðstöðin sé mjög samt sambærileg þeirri sem fyrirhuguð er á Klaustri og er eðlilegt að það verði þannig. Nú hvet ég alla til samhjálpar um að við finnum fjármagn og hefjumst sem allra fyrst handa svo verkefninu verði lokið á næstu tveimur árum.