145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

469. mál
[16:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og hv. þingmönnum þátttökuna í þessari umræðu. En ég verð að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra vegna þess að eins og ég skil svör hans hefur í raun og veru lítið gerst í málinu, afar lítið gerst á hans vakt. Við erum að tala um að 30 millj. kr. á þessu ári verði lagðar fram á meðan gert er ráð fyrir umtalsvert hærri upphæðum í tíu ára áætlun hópsins sem lagði fram skýrsluna í desember. Hæstv. ráðherra talaði í desember í umræðum um fjárlagafrumvarpið um að hann vænti þess að ná einhvers konar samstarfi við atvinnulífið um að það legði verkefninu lið með fjárframlögum. Það sem er að frétta í því máli er að samþykkt hafi verið fjárveiting fyrir verkefnisstjóra. Það er það sem er að frétta í málinu. Það er ekkert fullnægjandi annað en að hæstv. ráðherra leggi fram tímasetta áætlun sem er í samræmi við það sem hópurinn lagði til, tíu ára áætlun til þess að verja íslenska tungu því sem annars er óumflýjanlegt. Það kom fram í máli hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar að íslensk tunga borgar sig ekki á venjulega mælikvarða hagvaxtar, útgjalda og ríkisrekstrar. Hún þarf opinberan stuðning, þarf samstöðu á Alþingi, þarf á framlögum úr ríkissjóði að halda, hún þarf sárlega á þeim framlögum að halda. Það sama gildir um íslenska tungu eins og hér hefur verið nefnt með loftslagsbreytingarnar, þegar það er orðið of seint þá er orðið of seint.