145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

herferð SÍM um að borga myndlistarmönnum.

470. mál
[17:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Herferðin „Við borgum myndlistarmönnum“ stendur núna yfir en tilgangur hennar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og bæta kjör og stöðu myndlistarmanna. Veitir ekki af. Þar er um að ræða sérstaka stöðu listgreinarinnar, að listamenn með reynslu og sérþekkingu á sínu sviði fá hreinlega ekki greitt fyrir vinnuframlag sitt. Það er eðlileg krafa að myndlistarmenn séu metnir að verðleikum eins og aðrir listamenn. Með þessu verkefni beinir stjórn SÍM sjónum stjórnvalda og annarra þeirra sem ættu að greiða fyrir list að þessari sérstöðu.

Þungamiðja þessarar herferðar er samningur um þátttöku og framlag listamanna til sýningarhalds. Þau drög sem liggja nú á vefsíðu SÍM eru grundvöllur að slíkum samningi. Samband íslenskra myndlistarmanna horfði sérstaklega til sænsks samnings. Sænska ríkið skrifaði undir samning um þóknun til listamanna í Svíþjóð 2009 sem hefur síðan verið fyrirmynd sambærilegs samnings í Noregi og einnig í Danmörku. Nú stendur yfir gerð samnings í Finnlandi og Austurríki með þennan sænska að fyrirmynd. Stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna hefur sérstaklega stutt þetta frumkvæði með því að leggja fram þessar útlínur að samningi og vill að listasöfn og listamenn geti stuðst við þetta módel.

Við vitum að þetta er flókið fyrir listasöfn á Íslandi sem þurfa auðvitað að reka sig o.s.frv., og þarna værum við að tala um aukinn kostnað, og þess vegna þarf að stilla saman strengi með öllum þeim sem vinna saman í myndlist, myndlistarmönnum, söfnum og öðrum þeim sem lifa og hrærast í daglegu myndlistarlífi, ef svo má að orði komast, og þá verður mikilvægt að ná sameiginlegum tóni meðal allra þeirra sem vinna á þessu sviði. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra um sýn hans á þessa tilteknu herferð Sambands íslenskra myndlistarmanna undir yfirskriftinni „Við borgum myndlistarmönnum“ sem er í samræmi við stöðuna í löndunum í kringum okkur sem hvetur til þess að myndlistarmenn fái greitt fyrir sín störf.