145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

herferð SÍM um að borga myndlistarmönnum.

470. mál
[17:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Hvað varðar sýnina má svara því til og vitna í Lúkasarguðspjallið 10:1. Þar segir, eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir: „Verður er verkamaðurinn launa sinna.“ Ég held að við séum öll sammála, og muni enginn andmæla því, að þessi setning á við um myndlistarmenn eins og alla aðra.

Ég held að það fari ekki á milli mála hversu mikilvæg úthlutun listamannalauna er í landinu og menn séu almennt sammála um það á Alþingi. Þegar kemur að þeim markmiðum sem við viljum setja okkur með því að styðja við listirnar almennt erum við auðvitað að fjárfesta í einum af grunnþáttum samfélagsins. Þessi fjárfesting skiptir okkur gríðarlega miklu máli.

Ég ætla að leyfa mér að tala almennt um það sem ég er að velta fyrir mér af því að þingmaðurinn kallaði eftir sýn. Hér eru bæði formlegar og fjárhagslegar aðstæður sem mig langar að velta upp með hv. þingmanni og umræðunni til að leiða okkur í átt að einhverri lausn í þessum málum.

Þegar litið er til fjárhagslegra þátta tel ég að hér megi koma fram að miðað við óbreytt sýningarhald frá árinu 2015 þyrftu listasöfn í landinu að greiða myndlistarmönnum um 90 millj. kr. á ári ef greitt yrði til listamannanna samkvæmt þeim fyrirliggjandi hugmyndum sem hv. þingmaður ræddi. Það ætti þá að gefa okkur einhverja mynd af fjárhagslegum ramma. Þá kemur spurningin hvort það ætti að vera skýlaust hlutverk ríkisins að tryggja slíkt fjármagn, m.a. í ljósi þess að flest þeirra safna sem um ræðir eru í eigu sveitarfélaga eða sjálfseignarstofnana. Nú eru fjárveitingar til myndlistarmála í fjárlögum nærri 700 millj. kr. Þá kemur spurningin: Sjáum við fyrir okkur að Alþingi, sem fer með fjárveitingavaldið, væri tilbúið að auka fjárveitingar til myndlistar um 90–100 millj. kr. á ári til að verða við þessu erindi? Það er kjarni málsins hér. Og áfram, í ljósi þeirrar spurningar: Á þá að veita þessa styrki til sveitarfélaganna sem eiga söfn eða sjálfseignarstofnana? Það þarf að ræða það. Þá kemur spurningin: Hvert ætti að vera lagalegt form þessara fjárveitinga? Á það að fara í gegnum núverandi sjóði, t.d. safnasjóð eða Myndlistarsjóð, eða ætti að setja upp nýtt form fjárveitinga í þessu skyni? Það þarf að taka afstöðu til þess. Það þarf líka að taka afstöðu til þess hver ætti að vera tenging slíkra fjárveitinga við aðrar fjárveitingar ríkisins til myndlistarmála, t.d. í gegnum Myndlistarsjóð og starfslaunasjóð. Ættu sömu listamenn að geta allt í senn notið verkefnastyrkja úr Myndlistarsjóði, starfslauna og launagreiðslna frá listasöfnum vegna sýninga á grundvelli nýrra samninga þar að lútandi?

Menn eiga að fá greitt fyrir vinnu sína, við erum öll sammála um það, en þetta eru sjónarmið sem koma upp og leita á. Við þurfum þá að ræða þau hér til að geta tekið endanlega afstöðu til þess. Ég þekki vel til þessara mála, ég hef setið fundi með einstaklingum sem hafa fengist við þetta og athygli mín hefur verið vakin á þessu. Við höfum rætt þetta innan míns ráðuneytis. Þarna er augljóst vandamál. Það er eðlilegt að uppi sé krafa um að menn fái greitt fyrir vinnu sína.

Þau sjónarmið sem ég reifaði áðan eru meira til að opna umræðu til að leita eftir því að við þroskum hana síðan áfram til að geta tekið endanlega afstöðu.