145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

framhaldsskóladeild á Vopnafirði.

548. mál
[17:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það eru orðnar þrjár vikur síðan ég lagði fram þessa fyrirspurn, í sjálfu sér að gefnu tilefni þar sem heyrst hafði að námið sem hér um ræðir, framhaldsdeild á Vopnafirði, yrði hugsanlega ekki að veruleika. Þótti mér það miður og heimamenn sem við hittum í kjördæmaviku voru uggandi um stöðuna. Síðan skilst mér að eitthvert vatn hafi runnið til sjávar og heimamenn búnir að funda með ráðherra en engu að síður langar mig að ræða þetta mál við hæstv. ráðherra. Það eru örfá atriði, m.a. eitt sem mig langar að gagnrýna og spyrja ráðherra: Eru nokkuð mörg fleiri dæmi um slíkan seinagang eins og varð hér vart við með þetta mál? Það eru send bréf eftir mörg samtöl af hálfu Laugaskóla sem ætlar að taka þetta verkefni að sér. Formlegt erindi er sent 20. nóvember 2015. Svar berst frá ráðuneytinu, frekar stuttaralegt verð ég að segja, 4. febrúar á þessu ári og að mínu viti er það óásættanlegur biðtími í opinberri stjórnsýslu, svo ég byrji á að ræða það. Ég vona sannarlega að það sé ekki algengt í ráðuneytinu.

Mikið hefur verið rætt um þetta og ég þarf ekki að segja ráðherra hversu miklu máli þetta skiptir. Það var ákvörðun fjárlaganefndar að leggja þessu máli lið vegna þess að það var búið að tala um það í töluverðan tíma að þessi framhaldsskóladeild í Vopnafirði yrði að veruleika. Ráðherra hafði sjálfur greinilega ekki séð sér fært að setja þetta inn í fjárlög og þar af leiðandi gerði fjárlaganefnd það enda taldi hún borð fyrir báru. Engu að síður telur skólameistarinn á Laugum að það vanti 1 milljón upp á til að deildin standi undir sér eða sé með sambærilegt framlag og aðrar slíkar deildir eru með. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann sé því sammála.

Þær gleðilegu fréttir hafa borist að nú þegar hafa fjórir nemendur gefið það upp að þeir hyggist sækja þarna nám og nú er verið að bera víurnar í fleiri. Eins og ráðherra þekkir og við höfum tekið samtal um nýtist þetta fleirum en bara 10. bekkingum. Það er hugsanlegt að fleiri eldri nemendur noti sér þetta. Nú hef ég heyrt því fleygt að það sé búið að tryggja þennan rekstur til tveggja ára, næsta skólaárs og þess þarnæsta. Ég spyr ráðherra hvort það sé ekki örugglega rétt þannig að þeir sem standa fyrir þessari deild geti verið þess (Forseti hringir.) fullvissir að þetta sé ekki bara eitthvað sem við förum af stað með í haust.