145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

framhaldsskóladeild á Vopnafirði.

548. mál
[17:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég tek undir að það skiptir máli að nemendur sæki í þessa þjónustu þannig að hún verði varanleg. Ástæða þess að ég rakti ekki söguna var sú að mér fannst ekki ástæða til að nefna Menntaskólann á Egilsstöðum, það er svo sem ekki vani heldur að nemendur úr Vopnafirði fari á Egilsstaði þannig að ég skildi aldrei þá hugmyndafræði en það gerðist vissulega og tafði málið eflaust. Hins vegar eru bara tryggð fjárframlög til hálfs árs, ekki heils árs, bara haustönnin er inni svo það sé sagt.

Mig langar líka til að halda því til haga, af því að hæstv. ráðherra nefndi nemendaígildin, að við þurfum auðvitað að tryggja nemendafjöldann. Það er rétt að við vitum ekki hver hann verður, hvorki við Laugaskóla né þarna næsta haust, enda hafa nemendaígildin gjarnan komið eftir á, en það þarf auðvitað að tryggja fjöldann.

Mig langar aðeins að spyrja út í stofnframlag eins og aðrar deildir hafa fengið. Allur gangur hefur svo sem verið á því hvernig þetta hefur verið gert og ég heyri að heimamenn eru tilbúnir að leggja fram í bili það sem þarf. Ég spyr hvort ráðherra hyggist tryggja þeim samt sem áður eitthvað upp í þann kostnað. Það þarf að útvega aðstöðu og annað slíkt í upphafi eins og við þekkjum.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, það er frábært að þetta skuli loksins verða að veruleika. Ég þekki þetta mjög vel þar sem ég kem úr samfélagi sem var mjög lengi með slíka deild áður en til varð Menntaskólinn á Tröllaskaga. Það skiptir miklu máli að hafa nemendur heima og inni í samfélaginu sem hluta af neytendum þess og ekki síður fyrir fjölskyldur.

Þetta eru spurningarnar sem ég varpa til hæstv. ráðherra. Ég ætlaði alls ekki að halda því fram að hann hefði ekki sýnt þessu áhuga, en það voru ekki fjárframlög á þessu ári, það er það sem ég átti við, ekki fyrr en fjárlaganefnd lagði það til.