145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

eftirlit með starfsemi hjúkrunarheimila.

566. mál
[17:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur fyrirspurnina. Spurningarnar eru þrjár.

Í fyrsta lagi er spurt: Hvernig er eftirliti með þjónustu hjúkrunarheimila háttað?

Í lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, er kveðið á um að embætti landlæknis skuli hafa eftirlit með gæði heilbrigðisþjónustunnar hér á landi. Eins og fram kom í máli hv. málshefjanda hefur embættið gert úttekt með ákveðnu verklagi á nær öllum hjúkrunarheimilum landsins á undanförnum árum.

Verklagið felst í stuttu máli í því að eftir að úttekt er ákveðin er haft samband við stjórnendur viðkomandi hjúkrunarheimilis og þeir beðnir um að senda ákveðnar upplýsingar sem embættið skoðar áður en í úttektarheimsókn er farið. Auk þessa eru skoðuð gögn um heimilið sem til eru hjá embætti landlæknis. Þar má til dæmis nefna gæðavísa, upplýsingar um atvik, kvartanir og ábendingar og fleira í þeim dúr.

Í úttektarheimsókninni sjálfri er síðan notaður ákveðinn gátlisti og að lokinni úttekt gerir embættið skýrslu. Eftirfylgni með þessu máli öllu fer svo fram eftir sex mánuði. Úttektir embættisins hafa stundum leitt í ljós að í starfseminni er eitthvað sem bæta mætti. Því er eftirfylgnin þýðingarmikil en hún felst í að athuga hvort úrbætur hafa verið gerðar við þá úttekt sem gerð var.

Hér er einnig nauðsynlegt að nefna og vert að taka fram að innra eftirlit hverrar stofnunar með gæðum þjónustunnar hlýtur ávallt að vera ákaflega mikilvægt og kemur ytra eftirlit ekki í staðinn fyrir það.

Ég vil þá nefna sérstaklega að á hjúkrunarheimilunum er gert svokallað RAI-mat með reglubundnum hætti til að meta hjúkrunarþarfir og heilsufar íbúa. Embættið fær upplýsingar úr þessu mati í gagnagrunn og gæðavísa sem honum tengjast og um árabil hafa stjórnendur hjúkrunar á einstökum hjúkrunarheimilum einnig getað fylgst með stöðu gæðavísa þegar gert er RAI-mat á viðkomandi heimili.

Embætti landlæknis skoðar einnig reglulega kvartanir eða ábendingar vegna þjónustu á hjúkrunarheimilum og metur hvort þær gefi tilefni til þess að fara í eftirlit til að meta gæði og öryggi þjónustunnar. Sú ákvörðun er tekin af þverfaglegu teymi um kvartanir og eftirlitsmál. Við rannsókn eftirlitsmála er ýmist staðfest að þjónustan mætti vera betri og embættið gerir þá í kjölfarið athugasemdir ef í ljós kemur að ekki er hægt að staðfesta það sem bent var á. Ef tilefni er til er eftirlitsmáli fylgt eftir af embætti landlæknis ef það hefur farið fram á umbætur eða nýtt verklag.

Önnur spurningin er um verkferla: Hvaða verkferlar eru viðhafðir við gæðaeftirlit og inngrip eftirlitsaðila þegar grunur vaknar eða vísbendingar koma fram um vanrækslu eða illa meðferð á öldruðum?

Það skýrir sig að hluta til sjálft í því sem ég hef hér að framan rakið. En embættið gerir tillögur til stjórnenda og fylgir þeim eftir. Við þekkjum það einnig út frá úttektum embættis landlæknis að langflest hjúkrunarheimili landsins eru með verklagsreglur og viðbragðsáætlanir ef grunur vaknar um vanrækslu eða ofbeldi gagnvart heimilismönnum.

Í þriðja lagi er spurt hvort við þekkjum til þess á undanförnum tíu árum að úttekt hafi leitt til aðgerða af hálfu hins opinbera, til dæmis landlæknisembættisins eða ráðuneytisins.

Því er til að svara að embætti landlæknis er víðtækt og tekur til skipulagðra eftirlitsferða en einnig til viðbragða við ábendingum frá íbúum, aðstandendum, starfsmönnum og öðrum eftirlitsaðilum, eins og til dæmis heilbrigðiseftirliti og brunaeftirliti sem sent hafa embættinu ábendingar.

Athugasemdir embættis landlæknis geta varðað bæði gæði og öryggi þjónustunnar, svo sem fjölda starfsmanna og fagþekkingu þeirra, aðbúnað íbúa, svo sem fæði, aðstöðu á herbergjum, næði eða þá möguleika til njóta samvista við fjölskyldu eða taka þátt í lífi utan heimilisins. Slíkar athugasemdir koma einkum varðandi yngri hjúkrunarsjúklinga.

Þá snúa athugasemdir embættis landlæknis einnig í sumum tilfellum að aðbúnaði, svo sem eftirliti með íbúum ef húsnæðið er ekki allt í einni byggingu, hjálpartækjum, húsbúnaði og aðgengi, til dæmis á milli hæða.

Í flestöllum tilvikum hafa forsvarsmenn hjúkrunarheimila brugðist vel við athugasemdum og ábendingum embættis landlæknis en embættið leiðbeinir einnig heimilum og veitir ráðgjöf. Ef heimili bregðast hins vegar ekki við athugasemdum embættis landlæknis með fullnægjandi hætti vekur embættið athygli velferðarráðuneytisins á því og er þá metið til hvaða aðgerða unnt er að grípa og brugðist við í samræmi við það.

Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af hálfu velferðarráðuneytisins eru einkum fyrirmæli (Forseti hringir.) um að lagfæra það sem miður er í starfseminni, í aðbúnaði eða verklagi stofnunar. Einnig hefur verið gripið til þess að fækka hjúkrunarrýmum á viðkomandi heimili og í nokkrum tilvikum hefur þess verið krafist að ákveðinn hluti húsnæðisins verði ekki notaður.