145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

apótek og lausasala lyfja.

570. mál
[17:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur þessar spurningar sem ég hyggst fara í gegnum, þær eru sjö.

Í fyrsta lagi er spurt um möguleika á lausasölu ákveðinna lyfja í dreifbýli, svo sem verkjastillandi eða bólgueyðandi lyfja, hóstasafts og fleira. Sá skilningur er lagður í spurninguna að spurt sé hvort möguleiki sé á lausasölu ákveðinna lyfja í dreifbýli utan apóteka og þá er svarið nei. Samkvæmt lögum er það einungis heimilt í lyfjabúðum og lyfjaútibúum. Þegar spurt er um hvaða reglur gildi um lausasölulyfin og hver munurinn er á þeim og lyfseðilsskyldum lyfjum þá á lyfseðilsskyldu lyfin aðeins að afgreiða og afhenda gegn því að framvísað sé lyfjaávísunum læknis. Lausasölulyfin er heimilt að afhenda og afgreiða án þess að lyfjaávísun sé framvísað. Ákvörðun um hvort lyf sé lyfseðilsskylt eða ekki er tekin af Lyfjastofnun í tengslum við skráningu lyfsins hér á landi. Þá er heimilt samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 20. gr. lyfjalaga að selja tiltekin lausasölulyf, þ.e. minnstu pakkningu og minnsta styrkleika nikótínlyfja eða flúorlyfja, utan lyfjabúða.

Á landinu eru alls 64 lyfjabúðir, en því til viðbótar reka fjögur sveitarfélög lyfsölur á grundvelli heimildar. Þá eru rekin 30 lyfjaútibú frá framangreindum lyfjabúðum. Þetta skiptist þannig að í Reykjavíkurkjördæmi eru 26 lyfjabúðir, í Suðvesturkjördæmi eru 17 lyfjabúðir, í Norðvesturkjördæmi eru sex lyfjabúðir og níu lyfjaútibú, og í Norðausturkjördæmi eru tíu lyfjabúðir og 13 útibú og í Suðurkjördæmi eru níu lyfjabúðir og átta útibú. Það eru 56 apótek sem hafa annaðhvort lengri eða skemmri opnunartíma en á milli kl. 9 og 18 af þessum 64.

Þegar spurt er hvort lyfjasendingar til apóteka út á land hafi tafist um meira en sólarhring þá leituðum við upplýsinga hjá Lyfjastofnun um svar við þeirri spurningu af því Lyfjastofnun hefur eftirlit með lyfjamarkaðnum. Lyfjastofnun hafði ekki upplýsingar um slíkar tafir eða seinkanir.

Það er einnig spurt hvort þeir sem búi langt frá apóteki geti fengið lyfin send heim. Það er heimilt að stunda póstverslun með lyf og um póstverslun um lyf gilda ákvæði reglugerðar nr. 1065/2008. Þar að auki bjóða margar lyfjabúðir upp á heimsendingu sem fer fram á þeirra eigin vegum.

Að síðustu ræddi hv. þingmaður um möguleikann á því að auka lyfjaþjónustu í brothættum byggðum. Í lyfjastefnu sem ég kynnti fyrir ekki löngu síðan og hyggst leggja á næstunni fyrir Alþingi sem þingsályktunartillögu er að finna eftirfarandi tvo áherslupunkta:

1. Vinna skal að bættu aðgengi að lyfjum á landsbyggðinni, sérstaklega á smæstu stöðunum þar sem þjónusta er takmörkuð. Við gerð nýrra lyfjalaga þarf að endurskoða reglur um lyfjaútsölur á landsbyggðinni.

2. Endurskoðaðar verði heimildir í lögum og reglugerðum til sölu lyfja, sérstaklega á landsbyggðinni, og kannað hvort æskilegt sé að heimilt verði að selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum.

Í frumvarpi til nýrra lyfjalaga sem einnig verður lagt innan tíðar fyrir Alþingi er tekið tillit til þessarar ofangreindu stefnumörkunar, þannig að að því gefnu að það frumvarpi gangi í gegn þá ættum við að geta séð innan tiltölulega skamms tíma ákveðnar breytingar eða möguleika til breytinga í þá veru sem hv. þingmaður kallar eftir.